Unglingamyndirnar frægu, The Breakfast Club, Sixteen Candles og Ferris Bueller’s Day Off, lentu nýverið á streymisveitu Netflix, en eins og glöggir vita koma allar þrjár úr smiðju kvikmyndagerðarmannsins John Hughes.
Hughes sló heldur betur í gegn á níunda áratugnum með ofannefndum titlum en hann skrifaði einnig handritið og framleiddi Home Alone, auk þess að skrifa kvikmyndir á borð við Mr. Mom, Pretty in Pink, Curly Sue, Baby’s Day Out, 101 Dalmatians og Maid in Manhattan.
Í nýjasta þætti Stjörnubíós, rýnir Heiðar Sumarliðason í þekktustu myndir Hughes og skoðar þær frá sjónarhorni samtímans. Heiðar segist, líkt og margir aðrir, hafa elskað klassíkerana og ákvað hann að hlaða í „einn krúttlegan nostalgíuþátt.“
Neyddist hann þó til að skipta um kúrs þegar hann sá hversu „sturlað óviðeigandi“ honum þótti þær vera í dag. Gestur Stjörnubíós er Bryndís Ósk Ingvarsdóttir, listakona og kvikmyndagagnrýnandi, og standa bæði á því að þessar frægu Hughes-myndir eldast ekkert alltof vel. Myndirnar eldast þó (heppilega?) misvel og kemur Ferris Bueller skástur út úr kostulegu samantektinni, sem hér má finna að neðan.