Það er endalaust umdeilt á meðal kvikmyndaáhugamanna hvort að The Boondock Saints frá 1999 sé góð bíómynd eða ekki. Ég held samt að flestir séu á einu máli með framhaldið sem kom út heilum áratugi síðar.
Boondock-aðdáendur gleðjast væntanlega yfir þeim fréttum að leikstjórinn/handritshöfundurinn Troy Duffy hefur mikinn áhuga á því að henda þriðju myndinni í tökur sem allra fyrst. Aðalleikarar myndanna, Norman Reedus og Sean Patrick Flanery, deila einnig sama áhuga enda eru McManus-bræðurnir í heilmiklu költ-uppáhaldi.
Í viðtali við IFC (Independant Film Channel) í tengslum við þriðju seríuna á The Walking Dead sagði Reedus að þeir leikararnir hafa verið að hitta Duffy undanfarið til að ræða um hugmyndir fyrir söguna, en hún er víst öll að koma til. Segir hann að myndin verði með öllum líkindum „brjáluð!“ Hvað sem það nú segir.
Augljóslega er þetta enn allt saman á grunnstigi og verður væntanlega greint frá því þegar eitthvað meira fréttist. Erfitt er að segja til um tímaramma eða frumsýningardag. Það myndi heldur ekki skipta miklu máli hérlendis þar sem Íslendingar fengu hvoruga Boondock Saints-myndina í bíó.
Í hvoru liðinu ert þú? Með eða á móti Boondock Saints-myndunum?
Hefur annars einhver hérna horft á heimildarmyndina Overnight?
Tékkið endilega á henni. Ef þið finnið hana.