Blóðhefnd kostaði innan við 10 milljónir

Fréttablaðið greindi frá því í gær að íslenska hasarmyndin Blóðhefnd hafi kostað innan við tíu milljónir í framleiðslu, og að aðstandendur væru ánægðir með niðurstöðuna. „Við erum virkilega ánægðir miðað við peningana sem við vorum með í höndunum. Þetta er fyrsta alvöru hasarmynd Íslandssögunnar,“ sagði Huginn Þór Grétarsson, meðframleiðandi og einn af leikurunum í Blóðhefnd í samtali við blaðið.

Myndin kemur í bíó 12. október. Hún hefur verið í fjögur ár í vinnslu og kostnaðurinn er innan við tíu milljónir króna.

Blóðhefnd gerist í undirheimunum og fjallar um glæpahring sem ógnar fjölskyldu vegna útistandandi skulda. Aðalpersónan, sem leikstjórinn Ingólfur Ingólfsson leikur, fyllist hefndarþorsta og tekur málin í sínar hendur.

Huginn segir í samtalinu að menn geti átt von á alvöru hasar: „Það eru mjög flott slagsmálaatriði þarna og alvöru hasar,“ segir hann í Fréttablaðinu. 

Smellið hér til að skoða sýnishorn úr myndinni.