Eins og reglulegir bíófarar vita hafa kvikmyndahús lokað dyrum í ótilgreindan tíma í ljósi faraldurs. Þó hefur vonin ekki verið öll fyrir fólk sem vill sækjast í kvikmyndaupplifun utan heimastofunnar, en á dögunum var haldið bílabíó á plani við reiðhöllina Faxaborg, rétt ofan við Borgarnes. Á dagskrá var kvikmyndin Nýtt Líf, fyrsta kvikmynd þríleiksins um Danna og Þór eftir Þráin Bertelsson.
Nú hefur Sena í samstarfi við Smáralind ákveðið að klára þríleik Þráins með stæl, sambærilegu sniði og aukaglaðning frá sama leikstjóra. Um helgina verða fjórar sýningar haldnar á þremur myndum og verður stillt upp tjaldi á efra plani Smáralindar þar sem inngangur Smárabíós er.
Sýndar verða íslensku kvikmyndirnar Jón Oddur og Jón Bjarni, Dalalíf og Löggulíf.
Bíóið verður opið öllum á meðan pláss leyfir á bílaplaninu.
Dagskráin mun skiptast svona:
Laugardagur 4. apríl:
kl. 16:00 – Jón Oddur og Jón Bjarni
kl. 20:00 – Dalalíf
Sunnudagur 5. apríl:
kl. 16:00 – Jón Oddur og Jón Bjarni
kl. 20:00 – Löggulíf
Þar sem samkomubann er enn í gildi eru gestir beðnir um að halda sér í bílunum á meðan sýningu stendur. Eru bílabíógestir jafnframt hvattir til að koma með eigin veitingar.