Kathryn Bigelow, leikstjóri Zero Dark Thirty, segir að þeir sem hafa gagnrýnt myndina fyrir pyntingarnar í henni ættu frekar að beina gagnrýninni til bandarískra yfirvalda í Washington sem fyrirskipuðu þær.
Í grein í Los Angeles Times sagðist Bigelow vera á móti pyntingum af öllu tagi en þær hafi engu að síður verið hluti af hinni áratugslöngu leit að Osama bin Laden og ekki hefði verið hægt að horfa framhjá því við gerð myndarinnar.
Zero Dark Thirty var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna fyrir skömmu, þar á meðal fyrir bestu mynd. Athygli vakti að Bigelow var ekki tilnefnd fyrir leikstjórnina. Margir kenna þar um neikvæðu umtali sem myndin hefur fengið vegna pyntinganna.
Hópur öldungardeildarþingmanna skrifaði bréf til framleiðandans Sony Pictures og sagði myndina „mjög ónákvæma og misvísandi“ vegna þess að hún gefur í skyn að pyntingar hafi hjálpað Bandaríkjamönnum að handsama bin Laden.
Leikarinn David Clennon, sem er í Óskarsakademíunni, hvatti aðra meðlimi akademíunnar til að sniðganga myndina í atkvæðagreiðslu sinni því hann sagði hana fylgjandi pyntingum.
Zero Dark Thirty fékk engu að síður góða aðsókn og fór beint á toppinn sína fyrstu viku á lista í Norður-Ameríku með 24 milljónir dollara í aðgangstekjur.
Bigelow telur að bin Laden hafi fundist vegna frábærrar rannsóknarvinnu. Pyntingar hafi aftur á móti verið notaðar á fyrstu árum leitarinnar að honum.