Kvikmyndin Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson vann aðalverðlaun dómnefndar á kvikmyndahátíðinni Gyllti hrafninn sem fór fram dagana 9. – 15. mars í Anadyr í Rússlandi. Þetta kemur fram á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands en það var Vigfús Þormar Gunnarsson, leikari og eigandi Doorway casting sem sá um leikaraval fyrir Bergmál, veitti verðlaununum viðtöku við lokaathöfn hátíðarinnar.
Bergmál hefur verið að ferðast víða á milli kvikmyndahátíða síðan í haust þegar myndin var heimsfrumsýnd í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Locarno í Sviss. Þar hlaut myndin aðalverðlun dómnefndar unga fólksins.
Nokkru síðar fékk Bergmál verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Seminci, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Valladolid á Spáni, verðlaun Lúthersku kirkjunnar í Lubeck í þýskalandi og tónskáldið Kjartan Sveinsson hlaut verðlaun fyrir tónlistina í myndinni í Les Arcs í Frakklandi.