Ævintýramyndin Jungle Cruise ber höfuð og herðar yfir aðra titla í kvikmyndahúsum þessa dagana hvað aðsókn varðar. Myndin flaug beint í efsta sæti íslenska aðsóknarlistans um helgina og voru hátt í fjögur þúsund manns sem sáu myndina í bíó. Þess má geta að myndin lenti einnig á streymi Disney+ gegn aukagjaldi.
Jungle Cruise skartar þeim Dwayne Johnson, Emily Blunt, Édgar Ramírez, Jesse Plemons og Paul Giamatti í helstu hlutverkum. Johnson heldur um stjórntaumana á bátskrifli sem siglir niður fljót í skóginum. Með honum á skipinu er landkönnuður (Blunt) í ætt við Indiana Jones, sem leitar að fornum grip djúpt í iðrum skógarins, sem á að hafa lækningamátt.
Vikuna áður var það stuðmyndin Space Jam: A New Legacy sem hreppti efsta sætið en hafnar í öðru sæti þessa vikuna. Samanlagt hafa yfir þrettán þúsund manns séð myndina í bíó frá frumsýningu. Í þriðja sæti aðsóknarlistans færðist Marvel-myndin Black Widow með hátt í 20 þúsund gesti.
Heildarlistann má sjá hér að neðan.