Svo virðist sem heiladautt barnaefni selji ekki jafn vel og margir vilja meina því um helgina hrapaði barnamyndin The Oogieloves in the BIG Baloon Adventure áður en hún hafði færi á að ná flugi. Myndin kostaði tæpar 20 milljónir dollara að framleiða og síðan 20 til viðbótar í markaðsetningu, en hún skilaði einungis tæpum 450.000 dollurum í miðasölu þrátt fyrir að vera sýnd í rúmum 2.000 bíóhúsum í Bandaríkjunum.
Þetta þýðir að hún hefur slegið metið yfir tekjulægstu kvikmyndina til að hljóta víða dreifingu í Bandaríkjunum. Síðasti ‘methafi’ var tölvuteiknimyndin Delgo sem tapar þar með eina markverða einkenni sínu í kvikmyndaheiminum.
Það þýðir að hvert bíóhús (af 2.160) halaði inn einungis í kringum 207 dollurum í heildina um helgina fyrir sýningar á The Oogieloves in the BIG Baloon Adventure. Ef við miðum við að miðinn úti sé keyptur á sjö til níu dollarar þá eru það 23-30 bíógestir á myndina út alla helgina per bíóhús að meðaltali.
Hér fyrir neðan má sjá stikluna ef ykkur langar í heilapínu, en ég er ekki viss um hvort ég myndi frekar láta rífa úr mér endajaxlana aftur eða sjá myndina í heild sinni, ef ég hefði ekki annarra kosta völ:
Eigum við ekki bara að skrá þetta sem óbeinan sigur í sögubækurnar?