Bardagamyndir framtíðarinnar ?

Keanu Reeves stendur í ströngu þessi misserin en hann leikstýrir sinni fyrstu kvikmynd þessa dagana, Man of Tai Chi, og er hann því staddur í Beijing eins og er. Man of Tai Chi er bardagamynd (eins hörð og þær gerast) og kemur í bíó á næsta ári.

Við tökurnar notar Reeves kvikmyndatökukerfi sem kallast Iris frá Bot & Dolly (eitthvað sem kvikmyndanemar ættu að kannast við) sem hefur þann möguleika að ná kvikmyndaskotum sem ómögulegt er að ná með því að einfaldlega halda á upptökuvélinni eða beina henni aðeins lóðrétt eða lárétt í ákveðnar áttir.


Myndbandið hér fyrir neðan sýnir tæknina í hasar og ljóst er að þetta gerist varla ferskara. Aðferðirnar sem Iris notar eru þó ekki nýjar af nálinni en það er ekki oft sem við sjáum þær í notkun í fullri lengd. Bardagamyndir eru oftar en ekki teknar upp þannig að atriðin eru hröð og miklar klippingar eru til staðar. Með þessari tækni er mögulegt að við séum að horfa á nýja tegund bardagakvikmynda með lengri tökum, hrárri atriðum og færri brellum.

Þetta lítur fáránlega vel út og ég vona að Keanu Reeves takist að búa til góða mynd, en síðasta almennilega bardagamynd sem ég sá var The Raid: Redemption. Þar á undan hafði ég ekki séð framúrskarandi bardagamynd í langan tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessar löngu tökur með Iris verði til staðar í lokaútgáfu myndarinnar eða hvort þær verði klipptar í drasl til að auka á hasarinn líkt og venjan er.