B.J. Novak, sem er þekktur fyrir hlutverk sitt sem Ryan Howard í The Office sjónvarpsþáttunum, virðist vera á leið til Oscorp fyrirtækisins í Spider-Man.
Opinber tilkynning er komin um að leikarinn muni leika í nýju Spider-Man myndinni, The Amazing Spider-Man 2, en hvert hlutverk hans er nákvæmlega er ekki vitað ennþá.
Af myndinni sem fylgir þessari frétt að dæma, sem leikstjórinn Marc Webb setti á Twitter samfélagssíðuna á fimmtudaginn sl., virðist sem persónan hafi eitthvað glæpsamlegt á prjónunum, en í texta sem fylgir myndinni þá ýjar Webb að því að Novak vinni fyrir Oscorp.
Eins og aðdáendur Spider-Man vita þá er Oscorp í eigu Norman Osborn, sem er betur þekktur sem the Green Goblin.
Á síðustu árum hefur Novak, sem er 33 ára gamall, verið að feta sig inn í kvikmyndirnar og hefur m.a. leikið í myndunum Reign Over Me, Knocked Up og Inglourious Basterds.
The Amazing Spider-Man 2 er nú í tökum, en í myndinni er Köngulóarmaðurinn enn að fara á fjörurnar við kærustuna, hana Gwen Stacy, þó svo að lögreglumaðurinn faðir hennar hafi skipað honum að halda sig í burtu. Nýr óvinur er einnig kominn fram á sjónarsviðið, Electro, leikinn af Jamie Foxx.
Myndin kemur í bíó 2. maí 2014.