Þá er komið að fjórðu Kvikmyndir.is forsýningunni okkar á þessu ári (hinar eru Super 8, Harry Potter (7 og) 8 og Captain America – fyrir þá sem eru forvitnir), og lengi höfum við haft auga á stórmyndinni The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn. Við evrópubúar þekkjum þetta auðvitað sem bara „Ævintýri Tinna,“ og g gæti myndin varla verið í öruggari höndum; Steven Spielberg leikstýrir, Peter Jackson framleiðir með honum og þeir Steven Moffat (Coupling, Sherlock), Joe Cornish (Attack the Block) og Edgar Wright (Shaun of the Dead, Scott Pilgrim) sjá um handritið.
Þarf nokkuð meira? Hélt ekki. Og ef þið eruð eins og undirritaður (þ.e.a.s. gamlir aðdáendur) sem fyllist gríðarlegri nostalgíu bara við það að sjá titil myndarinnar, þá er bókað að þú varst löngu búinn að ákveða að sjá þessa mynd áður en þú vissir hvaða fagmenn sæju um hana.
Sýningin verður haldin mánudaginn 24. október kl. 22:00 í Háskólabíói (3D gleraugu eru innifalin í verðinu í því bíói – en þau eru þó ekki til eigu).
Miðaverð er 1500 kr. (ekki nema 50 kr. álagning útaf hléleysinu, sem Kvikmyndir.is-menn telja að geri bíóupplifunina enn betri).
*UPPFÆRT*
það eru enn til miðar eftir á Tintin. Þeir sem vilja senda tölvupóst og láta taka frá miða, sendið á tommi@kvikmyndir.is, og borgið síðan á staðnum (en þá þarf að borga í beinhörðum peningum þar sem við verðum ekki með posa). Miklu þægilegra fyrir þá sem eru ekki með aðgang að kreditkorti. Sjáumst þar.