James Cameron mun taka næstu þrjár Avatar bíómyndir á Nýja Sjálandi. Í frétt Variety kvikmyndaritsins segir Cameron að stefnt sé að frumsýningu fyrstu myndarinnar í desember 2016 og að næstu tvær þar á eftir verði frumsýndar í desember 2017 og 2018.
Leikstjórinn tilkynnti um þetta á blaðamannafundi í Nýja Sjálandi ásamt forsætisráðherra landsins, John Key.
Kostnaður við gerð myndanna er áætlaður um 413 milljónir Bandaríkjadala eða 48,5 milljarðar íslenskra króna.
Ákvörðun Cameron kemur í kjölfar þess að yfirvöld á Nýja Sjálandi hafa ákveðið að auka skattaívilnanir vegna kvikmyndagerðar í landinu upp í allt að 25%, úr 15%, frá og með 1. apríl nk.
„Avatar framhaldsmyndirnar munu skapa hundruði starfa og þúsundir klukkustunda af vinnu í kvikmyndabransanum, og annars staðar í hagkerfinu,“ sagði ráðherra atvinnumála, Steven Joyce í yfirlýsingu.