Warner Brothers vinna nú að því að koma Artúr konungi á hvíta tjaldið, og voru með nokkrar útgáfur af miðaldasögunum tilbúnar til að fara í gang. Á endanum völdu þeir handrit eftir David Dobkin (Wedding Crashers, The Changeup) sem mun einnig leikstýra, og mun myndin kallast Arthur & Lancelot. Af hverju völdu þeir gæjann á bakvið Wedding Crashers? Hann hlýtur að hafa haft góða nálgun á efnið. Það sem við vitum er að þetta á að verða ný og fersk taka á mýturnar – í stíl við Sherlock Holmes. Semsagt léttur tónn og mikill hasar. Eins vel og mér fannst Sherlock Holmes heppnast, hljómar ekkert alltof vel þegar annarri hverri mynd sem á að fara að gera er lýst þannig.
Tökur eiga að hefjast snemma á næsta ári og undanfarið hafa fréttir gengið með minnislistum yfir þau nöfn sem eru nálægt því að landa aðalhlutverkunum. Þannig fréttir geta verið ansi leiðinlegar, þannig að við ákváðum bara að bíða þangað til að í ljós væri komið hverjir fengju þau. Í fyrsta lagi var semsagt Joel Kinnaman fenginn í hlutverk Lancelots. Joel hver? Það er sænskur leikari, sem m.a. lék aðalhlutverkið í Snabba Cash, og sést nú í Bandarísku endurgerðinni á Forbrydelsen, sem kallast The Killing. Hinsvegar hefur Kitt Harrington verið staðfestur í hlutverk sjálfs Artúrs, sem er vanur því að leika sverðasveiflandi konungssyni, en hann leikur Jon Snow í Game of Thrones. Er það bara ég, eða á Artúr ekki að vera ljóshærður? Kannski horfði ég bara á of mikið af Merlin þáttunum frá BBC.
Sagan mun fjalla um Artúr ungan og hraustan mann uppalinn af fátækum riddara, en er launsonur konungsins. Lancelot er hinsvegar uppreisnargjarn riddari sem alltaf hefur fengið allt upp í hendurnar. Leiðir þeirra liggja saman, eflaust í einhver ævintýri – en ekki er sagt að neinn ástarþríhyrningur verði til milli þeirra og Guinevere. Það er verið að geyma það fyrir framhöldin. Gary Oldman hefur verið boðið hlutverk Merlin, sem gæti heppnast vel. Hinsvegar segir það ekki neitt – Liam Neeson var líka frábær valkostur í hlutverk Seifs, Clash of the Titans var samt ömurleg.
En við sjáum hvað setur, þeir Kinnaman og Harrington eru báðir ungir og lofandi, og ef að eitthvað er varið í handrit myndarinnar gæti þetta orðið fínasta skemmtun.