Paranormal Activity er saklausa, yfirnáttúrlega útgáfan af Saw-seríunni. Allavega hefur þróunin hingað til verið mjög svipuð. Báðar seríurnar byrjuðu ótrúlega vel en þá komu líka út ferskar og sjálfstæðar kvikmyndir sem létu manni líða mátulega óþægilega (samt á ólíkan hátt) en nýttu sér hræódýran framleiðslukostnað eins vel og þær gátu. Hvorugar voru hannaðar til að vera grunnurinn fyrir miklu stærri sögu, en þegar kvikmyndaframleiðendur fóru að veifa seðlunum, þá var það ekki nema aukaatriði að ná í framlengingarsnúruna.
Eftir óvænta velgengni fyrstu Saw/Paranormal-myndarinnar var strax ákveðið að gera aðra, og þar sem það vildi svo skemmtilega til að fyrri myndin hafði opinn endi var ekki erfitt að hanna framhaldsmyndina þannig að hún liti út eins og eðlileg framlenging. Síðan var passað sérstaklega upp á það að hafa endinn í framhaldinu nógu opinn til að hægt væri að endurtaka sama leik, eins lengi og sagan bauð upp á það, og áhorfendur héldu áhuga. Trikkið er að Saw- og Paranormal-myndirnar eru allar svo hræódýrar í framleiðslu að það er ekkert vesen að koma út í plús.
Þetta er gullnáma fyrir flest öll stúdíó að geta gert myndir með einföldu markmiði, fyrir ákveðinn markhóp, fyrir sama og engan pening ár eftir ár – á meðan reynt er að blekkja aðdáendur til að halda að serían hafi átt að vera svona stór frá upphafi. Saw-myndirnar urðu á endanum sjö að talsins og reyndu aðstandendur endalaust að finna nýjar fléttur til að halda þessu rúllandi, og það skipti ekki miklu máli hversu langsóttar eða handahófskenndar margar þeirra voru. En vissulega eru Saw allt, allt öðruvísi myndir heldur en Paranormal – en báðar seríurnar eiga (hingað til) fjölmargt sameiginlegt. Þær stýrast líka af stanslausum endurtekningum og versna örlítið með hverri lotu.
Sem betur fer virðist þessi sería versna mun hægar. Paranormal Activity 3 er nefnilega alls ekki sem verst, og reyndar er margt ótrúlega gott við hana. Hún kemur sér hratt að efninu, fer með söguna í skemmtilegar áttir, byggir upp spennu mjög vel og stríðir taugatrekktum áhorfandanum stundum í leiðinni á mjög skemmtilegan hátt. Reyndar er þetta „gimmick“ farið að þreytast rosalega og myndin kemst ómögulega framhjá þeim galla að þetta er allt meira af því sama og við sáum síðast. Aðeins þeir sem hafa ekki séð neina af þessum þremur myndum í seríunni geta sagt að þessi sé fersk, svo lengi sem þeir horfa á hana fyrst og taka svo myndirnar í öfugri röð. Það er hægt, því mynd númer tvö var mestmegnis forsaga fyrstu myndarinnar, og sú þriðja er forsaga beggja. Fattið?
Það vita samt flestir hvernig rútínan gengur fyrir sig; Hlutir gerast yfirleitt á skjaldbökuhraða, og þó svo að PA3 sé einbeittari og talsvert hraðari en hinar tvær, þá notar hún sömu reglu, þar sem hrollurinn á að byggjast hægt og rólega upp. Ég var strax orðinn meðvitaður um það að ekkert merkilegt ætti eftir að gerast fyrr en að minnsta kosti svona klukkutíma inn í myndina, nema skellandi hurðir, kviknandi (eða slökknandi) ljós og gervibregður teljast með. Þetta gekk upp í fyrstu tilraun og hélt jafnvel stöðugri athygli minni í annað skiptið líka, en núna var ég farinn að vilja fleiri nýjungar. Á þessum hraða gerist það ekki fyrr en í sjöttu myndinni. Ef hún verður gerð. Ég get sko ímyndað mér langsóttari hluti.
Leikurinn í öllum þremur myndunum er alls ekki sem verstur, og það er bara ágætis kostur miðað við það að helmingur óhugnaðarins er í þeirra höndum. Hinn helmingurinn er sálfræði áhorfandans, og þegar um er að ræða hrollvekju, er það oftast allt sem þarf, þ.e.a.s. trúverðugur leikur og gott andrúmsloft sem sýnir ekki of mikið. Þess vegna gegna þessar Paranormal-myndir sínu hlutverki ósköp prýðilega og eru þess vegna betri en t.d. Saw-serían. Það myndi samt skipta öllu ef meiri fjölbreytni væri í boði. Ef „déjà vu“ fílingurinn hefði ekki verið svona sterkur, þá hefði þessi þriðja mynd verið hörkugóð og kannski frábær. Ekki síst ef ýmsum handritsholum hefði verið reddað, því stundum botna ég ekkert í þeim ákvörðunum sem sumar persónurnar taka. Ein stendur sérstaklega upp úr, og hún kemur fram mjög seint í myndinni. Ég vil helst ekki spoila, en þeir sem hafa séð myndina ættu að geta séð hvað ég á við.
Það er samt eitthvað svo skondið við það að framleiðendur hafi valið sömu leikstjóra og gerðu „heimildarmyndina“ Catfish. Hún þóttist einmitt vera ósviðsett, en bara ekki í því sama djóki og t.d. fyrstu Paranormal-myndirnar (sem nutu þess að „blekkja“ áhorfendur með þeirri staðreynd að myndefnið væri ekta). Þessi Paranormal-mynd hefur traustustu söguuppbygginguna, sem sýnir einfaldlega að það eina sem var ósvikið við Catfish, er sú staðreynd að hún er ekkert nema froðukennt, lygasjúkt kjaftæði.
Annars er ekki margt annað að segja. Þessi mynd þjónar tilgangi sínum og mun gefa aðdáendum seríunnar það sem þeir vilja og kannski eitthvað smávegis auka. Ég er sjálfur ekki á móti því að sjá (a.m.k.) enn eina mynd í viðbót, því það er alveg hægt að gera eitthvað nýtt með efniviðinn og enn eru margar spurningar ósvaraðar. Vonum bara að aðstandendur séu nógu snjallir til að átta sig á því.
(6/10)
Paranormal Activity 3 var ekki gefin út í bíó á Íslandi, en hún kom út á DVD í gær.