Ný íslensk kvikmynd Afinn, eftir Bjarna Hauk Þórsson, sem frumsýnd var fyrr í vikunni, fær góða dóma í Morgunblaðinu í dag.
Í myndinni, sem byggist á samnefndu leikriti, er sagt frá Guðjóni, sem Sigurður Sigurjónsson leikur, sem lifað hefur öruggu lífi, menntast, kvænst og átt börn, verið í góðri vinnu og átt almennt gott líf. En þegar eftirlaunaaldur blasir við þá tapar hann áttum og sjálfsmyndin brotnar. Það hriktir í stoðum hjónabandsins, honum geðjast lítt að tilvonandi tengdasyni, sem leikinn er af Steinda Jr., og einangrast alltaf meira og meira.
Hjördís Stefánsdóttir kvikmyndarýnir Morgunblaðsins segir í umfjöllun um myndina að hún sé hlaðin skondnum stefjum sem binda hana hana vel saman. „Líkbíll virðist til dæmis elta Guðjón á röndum út alla myndina enda telur hann dauðann bíða sín handan næsta horns.“
Í kvikmyndaumfjölluninni eru leikur aðalleikaranna, búningar og sviðsmyndir lofaðar, sem og handritið og leikstjórnin, sem var í höndum Bjarna Hauks, sem jafnframt skrifaði handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni. „Bjarni fékk liðsstyrk frá Ólafi Agli við handritsgerð myndarinnar og þeir völdu vel í nýju hlutverkin svo útkoman er firnagóð.“
Í þriggja og hálfs stjörnu dómi sínum klikkir Hjördís út með að segja að myndin eigi erindi við alla og ætti að geta skemmt flestum „kostulega“.