Á annan veg boðið til keppni á San Sebastian – getur unnið 90 þúsund evrur

Kvikmyndahátíðin í San Sebastian á Spáni hefur boðið Á annan veg, kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, til þátttöku á hátíðinni í ár en hún fer fram 16. – 24. september.

„Það er ljóst að þetta er mikill heiður fyrir okkur þar sem kvikmyndhátíðin í San Sebastian er með þeim virtari í heiminum og er í flokki A-hátíða. Hátíðin er þekkt fyrir að blanda saman á skemmtilegan hátt verkum heimsþekktra kvikmyndaleikstjóra auk þess sem hún leggur sig sérstaklega eftir að uppgötva nýtt hæfileikafólk,“ segir Sindri Páll Kjartansson, einn framleiðandi myndarinnar, í fréttatilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.

Myndin keppir í flokki sem er tileinkaður fyrstu eða annarri mynd leikstjóra og er hún ein af fimmtán myndum sem tilnefndar eru til „Kutxa – New Directors Award.“
Til nokkurs er að vinna þar sem á ferðinni eru hæstu peningaverðlaun sem um getur á nokkurri kvikmyndahátíð í heiminum en í boði eru 90.000 evrur sem skiptast jafn milli leikstjóra sigurmyndarinnar og spænsks dreifingaraðila sem sér um að dreifa myndinni í kvikmyndahús á Spáni, að því er segir í fréttatilkynningu frá framleiðanda myndarinnar.


Á annan veg er meinfyndin og mannleg kómedía sem segir frá tveimur ungum mönnum sem starfa við vegavinnu á afskekktum fjallvegum á 9. áratugnum. Þeir handmála merkingar á malbik og reka niður tréstikur í vegkanta og hafa ekkert nema hvorn annan og tilbreytingalausa vinnuna – sem væri kannski allt í lagi ef þeim líkaði betur hvor við annan. En eftir að lífið tekur óvænta stefnu læra þeir að meta félagsskap hvors annars og þróa með sér vináttu – enda báðir á krossgötum í lífinu.

Í helstu hlutverkum eru þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hilmar Guðjónsson og Þorsteinn Bachman. Hafsteinn leikstýrir myndinni eftir eigin handriti og sögu eftir sig og Svein Ólaf.
Á annan veg er framleidd af Mystery Ísland og Flickbook Films.