Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Smárabíói í Smáralind í Kópavogi en tveir splunkunýir bíósalir verða teknir þar í notkun um miðjan desember næstkomandi, auk þess sem flestir aðrir salir verða uppfærðir. Öll framkvæmdin miðar að því að þægindin og bíóupplifunin verði sem mest og best.
Eins og Konstantín Mikaelsson framkvæmdastjóri Smárabíós sagði við kvikmyndir.is í sýningarferð um svæðið, er stefnt að því að ljúka framkvæmdum áður en stórmyndin Avatar: Fire and Ash verður frumsýnd 18. desember.
Í kjölfar hræðilegs stríðs gegn RDA og missis elsta sonar síns standa Jake Sully og Neytiri frammi fyrir nýrri ógn á Pandóru: Öskufólkinu, ofbeldisfullum og valdagráðugum Na'vi ættbálki undir forystu hins miskunnarlausu Varang. Fjölskylda Jake verður að berjast fyrir lífi sínu ...
Sýnt þolinmæði
„Gestir hafa sýnt okkur ótrúlega þolinmæði,“ sagði Ólafur Þórisson markaðsstjóri bíósins í kynningarferðinni en óhætt er að segja að nokkuð sé um liðið síðan nýir bíósalir hafa verið byggðir frá grunni á Íslandi.
Þar átti hann við að gestir hafa m.a. þurft að sætta sig við meiri þrengsli og óteppalagt gólf í anddyri rétt á meðan verið er að leggja lokahönd á svæðið, en inni í bíósölunum verður fólk ekki vart við framkvæmdirnar.
„Svo munum við setja upp risaauglýsingaskjá, miklu stærri en þennan sem fyrir er, hérna utan á,“ sagði Ólafur og benti á ytra byrði nýju salanna.
VIP sæti í boði
Í öllum sölum verða rafdrifin svokölluð VIP sæti efst uppi á besta stað sem munu kosta ögn meira en hin, enda þægindin meiri.
Eins og sést á meðfylgjandi myndum er búið að koma fyrsta flokks nýju Dolby Atmos hljóðkerfi fyrir á bakvið bíótjaldið, á veggi og loft, en um er að ræða fullkomnasta hljóðkerfi sem völ er á í dag fyrir bíóhús.
Í öðrum nýja salnum, þeim stærri, sem er hannaður af arkitektastofunni Glámu Kím, eins og aðrar breytingar í húsinu, verða rauð tjöld á veggjum m.a. „Þetta minnir mann óneitanlega á bíóhúsið Regnbogann á Hverfisgötu í gamla daga,“ segir Konstantín og brosir og segir að þetta skapi hlýlega og góða bíóstemmningu.
Stærsti salurinn í bíóinu, MAX, fær mikla andlitslyftingu með nýjum sætum, þar á meðal fyrrnefndum VIP-leðursætum.
Salirnir munu einnig nýtast fyrir ráðstefnur eða önnur fundahöld og skemmtanir og stutt er að fara í nýja mathöll Smáralindar á hæðinni fyrir neðan, ef menn vilja fá sér snarl á undan eða eftir bíói.
Kíktu á myndirnar hér fyrir neðan:























