Vaiana 2 gleður í fjögurra stjörnu dómi

Disneymyndin Vaiana, sem fjallar um höfðingjadóttur sem leggur af stað í hættuför út á hafið fyrir fólkið sitt, var nokkuð stór smellur árið 2016 og endaði á að verða ellefta mest sótta mynd ársins í heiminum, nokkuð langt að baki Zootopia og Finding Dory. En það var aðeins byrjunin. Myndin hefur eftir það tekið flugið á streymisveitum og árið 2023 var myndin sú vinsælasta á öllum veitum í Bandaríkjunum.

Frá þessu segir í fjögurra stjörnu dómi Tim Robey í breska blaðinu The Daily Telegraph.
Og í Hollywood þýðir velgengni aðeins eitt – framhaldsmynd. En framhaldsmyndir eru ekki alltaf vel heppnaðar – og lögin ekki alltaf jafn góð og í fyrstu myndinni.

Vaiana 2 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.1

Eftir óvænt spjall við forfeður sína leggur Vaiana af stað út á hafið og inn á hættulegt og löngu týnt svæði og lendir í stórbrotnum ævintýrum ásamt hálfguðinum Maui og litríkri áhöfn....

En að mati Robey er Vaiana 2 vel heppnað framhald sem gleður áhorfendur með hljómfegurð og nær föstum tökum á manni frá því andartaki sem söguhetjan okkar heldur af stað af eyjunni, í næsta ævintýri, ásamt sínu fríða föruneyti.

Auli’i Cravalho fer aftur með hlutverk Vaiana og gerir það stórvel að mati gagnrýnandans og syngur grípandi söngva eins og Beyond.

Vaiana fer ekkert án svínsins síns og kjúklingi sem eru að mati Robey jafn dásamleg og fyrr, og þrír aðrir út ættbálknum blandast í hópinn.

Hinn sjálfumglaði Maui, sem leikinn er af hinum geðþekka Dwayne Johnson, er einnig með í för og lendir í bráðskemmtilegum og litríkum uppákomum, þar sem teiknarar leika listir sínar í glæsilega útfærðum atriðum

Tónlistin fangar söguþráðinn

Gagnrýnandinn hrífst mjög af tónlistinni í myndinni. Hún nái að túlka vel efni myndarinnar, allt frá því þegar Vaiana vill breiða út vængina yfir í að þjást af heimþrá; lögin fjalla m.a. um að þú þurfir að finna þína leið en þora einnig að eiga á hættu að týna henni aftur.

Að lokum hvetur gagnrýnandinn okkur til að sitja út lokatextann, þar bíði frekari gómsætir molar.