Hrollur beint á toppinn

Spennuhrollvekjan Longlegs var frumsýnd nú á dögunum og velti Gru og skósveinum hans úr toppsæti íslenska bíóaðsóknarlistans. Alls hafa rúmlega fjögur þúsund Íslendingar séð Longlegs þegar þetta er ritað, en Despicable Me 4 heldur áfram góðu róli með tæplega 30 þúsund gesti.

Longlegs hefur náð gríðarlegum vinsældum um heim allan og er óhætt að telja þetta vera óvæntasta stórsmell sumarsins. Í myndinni segir frá alríkislögreglumanninum Lee Harker sem er efnilegur nýliði í löggunni, en með dularfulla fortíð. Hún fær það verkefni að leita uppi alræmdan fjöldamorðingja. En til þess að binda enda á morðæðið þarf lögreglukonan að leysa ýmsar torræðar þrautir.

Myndinni hefur verið líkt við nútímaútgáfu af Silence of the Lambs og hafa viðtökur gagnrýnenda almennt verið þrusugóðar.

Í þriðja sætinu trónir Snerting eftir Baltasar Kormák og hafa rúmlega 35 þúsund manns séð myndina í kvikmyndahúsum.

Rómantíska gamanmyndin Fly Me to the Moon var einnig frumsýnd um helgina og fór í sjötta sætið, á eftir Twisters og Inside Out 2.

Aðsóknarlistann má finna í heild sinni hér að neðan.