Bestu (og verstu) kvikmyndir 2020

Nú þegar (bíó)árið er að baki þýðir ekki annað en að gera upp framlög til kvikmyndalistarinnar og sjá hvað upp úr stendur.

Hvaða kvikmyndir grættu okkur mest? Hverjar voru þær fyndnustu? Hverjar voru mest spennandi, fallegastar og hverjar skildu mesta óbragðið eftir sig?

Þetta eru spurningarnar sem margir bíófíklar og sjónvarpshámarar eiga til að spyrja sig í lok hvers árs. Óneitanlega er af nægu að taka í sjónvarpsþáttageiranum (stutta útgáfan: The Queen’s Gambit, Tiger King, Schitt’s Creek og The Umbrella Academy að mati undirritaðs), en að sinni höldum við okkur við stakar kvikmyndir.

Hér að neðan má sjá tvo lista sem sýna báða enda gæðarófsins. Neðangreindir titlar eru ekki raðaðir eftir númerum/gæðum, heldur stafrófi. Listinn er miðaður við titla kvikmynda frá árinu 2020.

10 – Þriðji póllinn

Þau Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnússon leggja saman í forvitnilegan leiðangur um sjálf og hugarheim tveggja ólíkra einstaklinga þar sem ýmsir pólar geðhvarfa eru skoðaðir. Myndin er ekki eitthvað sem auðveldlega telst til einhverjar blússandi skemmtunar og með verri tökum væri þetta glamrandi og tilraunakennt tilfinningarúnk, en raunin er barasta alls ekki sú. Innlitið sem við blasir er ljúft, fallegt, einlægt og umfram allt smekklega og snyrtilega samsett.


9 – Slalom

Lítill fjársjóður frá Frakklandi þar sem Noée Abita fer með laumulegan leiksigur. Segir hér frá hinni 15 ára Lyz, efnilegri skíðakonu sem flækist í átakanlegan vef með vafasömum þjálfara sínum. Slalom afhjúpar hægt og rólega mjög erfið lög sem beinskeytt framvinda rúllar upp með úrvinnslu jafnt sem tæknivinnslu í háum gæðaflokki. Ferðalag og þróun Lyz rígheldur og er vel séð til þess með handritinu að stafa ekki öll smáatriðin út. Krafturinn kemur með hinu lágstemmda – oft hinu ósagða og Jérémie Renier er mátulega viðbjóðslegur sem þjálfarinn.



8 – Palm Springs

Dúndurskemmtileg rómantísk sci-fi kómedía sem byggir á hugmyndunum sem Groundhog Day kom í gang, enda sagan sögð í svipuðum dúr en með dýpra sniði. Palm Springs er þó fersk og frumleg á sinn máta; dásamlega tilvistarkennd, fyndin, hnyttin og þau Cristin Milioti og Andy Samberg eru ekkert nema æðibitar í aðalhlutverkunum.


7 – The Invisible Man

Ein af betri bíóupplifunum sem undirritaður getur vottað fyrir þetta árið. Stórspennandi, vel unninn og grípandi B-þriller, keyrður af meistaralegri frammistöðu Elisabeth Moss og frumlegri nálgun á sögu um gasljósun og fjötra ofbeldissambands. Bæði virkar myndin sem ýktur og yfirdrifinn vísindaskáldskapur og í senn lágstemmt og taugatrekkjandi persónudrama – og í kaupbæti er loksins kominn almennilega ferskur vinkill á Ósýnilega manninn.


6 – Mank

‘Mank’ er ekta kvikmyndaperramynd. Það bæði lyftir henni upp á vissan gæðastall en vinnur sömuleiðis gegn henni í augum almenna áhorfandans. En myndin, sem í fyrstu virðist þurr og uppfull af sér sjálfri, er fljót að sanna sig sem þrælskemmtilegt eintak. Ekki fullkomin mynd og ögn slitrótt í aftari hluta en óumdeilanlega má finna hér hið forvitnilegasta innlit í hugarheim áhugaverðs manns, innlit í merkilegan bransa, kexruglað fólk og eina klassíska mynd (þ.e. Citizen Kane).


5 – Dick Johnson is Dead

Brakandi fersk, heillandi, persónuleg og bara hreint og beint viðkunnanleg heimildarmynd frá Kirsten Johnson, þar sem hún heldur upp á líf, minningar og persónuleika föður síns. Umræddur faðir er enn á lífi þegar myndin er unnin og gengur nálgunin út á að fylgjast með honum á seinni sprettinum. Gerist Johnson jafnvel svo djörf að sviðsetja dauða pabba síns, oft með gífurlega hugmyndaríkum hætti, á meðan skilaboð flæða um brattan gang tilverunnar og allt hið ófyrirsjáanlega sem tilheyrir því. Dick Johnson is Dead er betra að njóta en útskýra, en þessi mynd snertir við sálinni með djúpum, listrænum og hversdagslegum hætti til skiptis.


4 – The Trial of the Chicago 7

Aaron Sorkin er algjörlega engum líkur þegar kemur að því að rífa kjaft með skrifum sínum. Með þessari sneið af sögu Bandaríkjanna er Sorkin kominn með sterkan efnivið á silfurfati, sem þýðir að heilmikið svigrúm og áhersla gefst fyrir þá takta sem höfundurinn er vanur að nota. Sorkin einblínir á óréttlæti og skilyrðislausa hlýðni við yfirvaldið; þöggun, fordóma, sameiningarkraft, stjórnleysi og sundurliðun ólíkra póla fyrir sama málstað. Frábær ræma – og fyndin líka.


3 – Never Rarely Sometimes Always

Fóstureyðingar hafa verið ófáum gífurlegt hitamál og sumum töluvert tilefni til smánunar. Never Rarely Sometimes Always er mynd sem veður í þessa umræðu og hliðar hennar út frá bandarískum veruleika án þess að nokkuð sé skafið af hlutunum eða predikað. Í kjarnanum er hér þó innbyggð saga um stuðning, drungalega óvissu og drifkraft í erfiðum aðstæðum. Sagan er óvenjulega byggð í strúktúr en nær þeim ljúfa, ósjálfsagða árangri að glugga í merkilegan, tilgerðarlausan hversdagsleika. Myndin er skrifuð og leikstýrð af Elizu Hittman og er töluvert fútt sett í blákaldan veruleika, sterkar þagnir og sannfæringarkraft aðalleikaranna. Þegar loks líður að senunni sem titill myndarinnar vísar svo sterkt í myndast þarna einhver kraftur sem hefur hægt og rólega kraumað. Það er einungis brot af þessum krafti sem skilar frá sér ómetanlega lúmskum en brillerandi broddi. Skemmtanagildi er ekki beinlínis stærsti aðdragandinn hér en erfitt er að þverneita fyrir það hvernig frábærlega unnið lítið drama getur tryggt góða endingu í minnisbúinu.


2 – Druk (Another Round)

Danski fagmaðurinn Thomas Vinterberg er á heimavelli þegar kemur að einföldum sögum um hið grátbroslega eðli mannsins og dramatískan spíral úr vissu sakleysi niður í eitthvað skuggalegra. Druk sameinar sterkt lið leikara (þó Mads Mikkelsen sé vissulega fremstur) og þétt handrit sem kemur á óvart og smám saman fer þær leiðir sem áhorfandinn óttast en innst inni hlakkar til að sjá. Vinterberg fordæmir aldrei karakterana á skjánum en skafar heldur ekki undan göllum sem blasa við. Druk á kannski ekki alveg erindi í sama gæðahóp og Festen eða Jagten, en stórskemmtileg er hún, marglaga og fátt frá árinu toppar lokasenuna.


1 – Possessor (Uncut)

Mikið getur oft verið gaman að ljúka við áhorf á kvikmynd og spyrja sig sjálfan: „Á hvern fjandann var ég að horfa??“

Kvikmyndagerðarmaðurinn Brandon Cronenberg skaust fyrst almennilega á sjónarsviðið með hinni ágætu Antiviral en hefur formlega náð að útskrifast nú í mínum bókum og betur mótað eigin rödd með annarri mynd sinni í fullri lengd. Cronenberg yngri á augljóslega ekki langt að sækja hæfileika í gerð martraðarfóðurs, dæmisagna um skemmdar sálir með grimmd og mannúð. Possessor er geysilega sterk lítil rússíbanareið með sci-fi hrollvekjuívafi, umvafin spurningum um sjálfið, mannlegt eðli og náttúrueðli. Andrúmsloftið flýtur og bítur frá fyrstu senum, tónlistin dáleiðir og handritið heldur alveg vandræðalega góðu flugi út í gegn. Myndin er grimm, óvænt, óþægileg, súrrealísk og ófáir rammar Cronenbergs síast langt inn í heilabúið.

Öll tilvistarkreppukássan er síðan hrærð til fullkomnunar með rafmögnuðum, ef ekki stingandi sterkum leik frá Andreu Riseburough, Tuppence Middleton og Jennifer Jason Leigh. Sem sagt, meiriháttar þrillerveisla fyrir fólk með sterk bein, þorsta fyrir einhverju abstrakt og vel þess virði að stúdera langt fram eftir glápið.


Fleiri góðar

Nomadland
Relic
The Social Dilemma
Totally Under Control
I’m Thinking of Ending Things
Wolfwalkers
You Cannot Kill David Arquette
The Devil All the Time
His House
Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga


Sérstakt hrós fær:

Hamilton

Það er umdeilanlega smá svindl að smella Hamilton með þar sem hvorki er um kvikmynd að ræða né kvikmyndaða sýningu frá árinu 2020. Þó var mikið húllumhæ í kringum útgáfuna á upptökunni og stóð meira að segja upphaflega til að gefa hana út í bíóhús. Á endanum rataði hún með látum á Disney+ og fékk stór hluti heimsbyggðar loksins að sjá – í gullfallegri háskerpu – um hvað hæpið snérist áður.

Hamilton-sýningin er vissulega algjört eitur fyrir fólk með söngleikjafóbíu og ekki beinlínis líkleg til að breyta þoli þess. Aftur á móti er auðvelt að taka þessu sjói með opnum örmum ef maður kann að meta orkuna sem hér er til staðar, textana, orðaleikina, taktinn og tilfinningarnar. Með einhverjum ofurheilatöfrum tókst hinum endalaust fjölhæfi Lin Manuel Miranda að smíða merkilega töff verk, rjúkandi af sál, upp úr viðfangsefni sem hljómar hvorki eins og stemning né spennandi.

Það blasir fljótt við að uppsetning söngleiksins með upprunalegu leikurunum er algjör tour-de-force sprengja af hæfileikum, skáldaleyfi, ýktu drama og miklum húmor. Þó má ekki horfa framhjá því hvað kvikmyndaða útgáfan á Disney+ er listilega klippt saman, dýnamísk og úthugsuð framleiðsla á sinn veg. „Myndin“ er samsetning upptöku með áhorfendum árið 2016 og lokuðum rennslum, sem leynir sér ekki þegar sést hvernig upptökuvélum er stillt upp. Það er yfirleitt mikið í gangi á sviðinu og í þessu klippi er radíusinn alltaf skýr. Með fylgir þessi fíni bónus að geta verið nær fólkinu á sviðinu, eða með því, frekar en að sitja læstur í sömu fjarlægð og með eitt sjónarhorn.

Gæti það örugglega sagt meira til um hvað bíóárið 2020 virkaði tómlegt á tíðum, en Hamilton fær klárlega að fljóta með í upptalningunni. Gæsahúðin hefði jafnvel skilað sér enn betur ef hefði tekist að koma henni í kvikmyndahús.


Þá eru það…

Verstu kvikmyndir 2020


10 – Mulan

Nú er þetta orðið ansi snúið. Undanfarin ár hafa Disney-stórrisarnir verið allsvakalega duglegir að endurpakka og stífmjólka gamla katalóginn (sérstaklega ’90s megin) og munu áfram gera. Þetta er búið að vera oft hundleiðinlegt trend en þá yfirleitt þegar ímyndunaraflið er í botni og engin ný sköpunargleði, sbr. Beauty and the Beast, The Lion King og (umdeilanlega) Aladdin. Ef á að slá á gamla nostalgíustrengi og endurgera eitthvað stórfrægt sem er ekki brotið, er vel þegið að vilji fyrir nýjum fleti eigi forgang. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að nýja Dumbo er með skárri mjólkunum á hinu gamla, eða úrelta.

Þá kemur Disney Mulan endurgerðin, sem á blaði (og með leikaravali) lofar góðu. Heildarsvipurinn reynir lítið að apa eftir gömlu klassíkinni, losar sig við skrípóið og sönginn. Öllu er stillt upp í stíl við Jerry Bruckheimer-útgáfuna af Wuxia-mynd og er peningurinn aldeilis áberandi á skjánum. Hvað gæti klikkað?

Í ljós kemur að þessi nýja, fokdýra nálgun (sem ofar öllu er slípuð og græjuð til að Disney gangi betur á Kínamarkaðinum) er bara skraufþurr, óheillandi, langdregin og lafandi. Hasarinn er flatur, leikarar yfirleitt lamaðir af vondu handriti og sjálf Mulan, titilfígúra sem hefur alla burði til að vera ómótstæðileg hetja, missir marks um leið og hún breytist í pjúra einhliða ofurhetju. Allt við þessa framleiðslu er kalkúlerað, töfralaust og stemningslaust.

Til samanburðar var það einmitt skrípóið, söngurinn, bratta atburðarásin og umfram allt aðalpersónan sem gerði teiknimyndina svo frábæra.


9 – Songbird

Framleiðslufyrirtæki Michael Bay var ekki lengi að hlaða í kvikmynd um útbreiðslu COVID(-23…), væntanlega með það að markmiði að kreista út viðtengjanlega spennu og ekki síður forvitni fyrir hráefninu. Útkoman er Songbird, spennutryllir sem hvorki kann að lesa í rýmið né fylla í örlátan tímaramma með neinu sem skilur eftir sig nægilegt högg. Myndin er algjör klisjupyttur og vantar í hana allt bit, alla kommenteríu, grípandi mannúð og áður en myndin nær almennilegu flugi er sýningartíma lokið. Fínir leikarar (t.d. Craig Robinson, Bradley Whitford, Peter Stormare, Alexandra Daddario og Demi Moore) gera sig að aulum og eftir stendur bara ódýr tilraun sem mörgum þótti ósmekkleg vegna tengingu við kórónuveiruna þegar faraldurinn var nýfarinn að herja á heimsbyggðina. Það ósmekklegasta reynist þó vera hvernig myndin hjólaði í þetta umfjöllunarefni án þess að hafa nokkuð að segja eða bæta við. Hryllingssaga um Zoom-fund Jeffrey Toobin hefði sjálfsagt verið bitastæðari en þetta frat.


8 – Downhill

Force Majeure fyrir rasshausa. Sóun á fínum gamanleikurum og táknmynd alls þess sem einkennir slæmar bandarískar endurgerðir á gæðaefni austanhafs.


7 – Hillbilly Elegy

Froðukennda tilfinningaklámsútgáfan af öllu því sem gerði Nomadland til dæmis svo sterka. Merki um það hvað sterkur leikur (og Glenn Close og Amy Adams eru yfirleitt hörkugóðar) gerir lítið gagn þegar efniviðurinn er litlu skárri en léleg sápuópera nema ekki jafn hlægilegur. Hillbilly Elegy snýst öll um ódýrt drama án þess að dýpt eða smáatriði fá að spila inn. Aðeins eitt element skilur eitthvað eftir sig af viti og það eru ósannfærandi hárkollurnar. Skemmtilegustu lubbanna er þar að finna en ekki í sögunni sjálfri, því miður.


6 – Hubie Halloween

Það að þessi hlandvolga og púðurslausa gamanmynd Adams Sandler skuli ekki lenda „ofar“ á þessum lista, er afrek út af fyrir sig. Sandler hefur áður gengið lengra í listinni að kveikja í peningum með svonefndu gríni en Hubie Halloween er of meinlaus til að móðga, of auðgleymd til að pirra og allt of ófyndin til að eiga verðskuldaðan sess sem stemningsmynd á hrekkjavöku um ókomna tíð. Þessi er aðeins fyrir hörðustu aðdáendur Sandlers, því ef þeir eru enn þarna úti er löngu orðið ljóst að gæðakrafa húmorsins er komin langt undir frostmark.


5 – The Witches

Aðlögunin á The Witches frá Robert Zemeckies er flækt í tónaglundroða og sjónarspilið er skuggalega lítið fagurt. Eitthvað fór alvarlega úrskeiðis í þessari nálgun og eftir stendur lítið annað en sóun á hæfileikum þeirra sem að henni komu – og tíma þeirra sem leggja í hana.


4 – Artemis Fowl

Hér er álíka vel farið með fyrstu Artemis Fowl bókina og til tókst með Eragon á sínum tíma. Burtséð frá öllu sem viðkemur aðlögun sögunnar er myndin bara afskaplega máttlaus og fljótfærnislega gerð en það sem kórónar allt er hvað útfærsla á svona fínum grunni er óeftirminnileg og pínleg. Tímasóun með öllu. Og enn fremur merki um hvað gerist þegar Kenneth Branagh leikstýrir bíómynd í svefni.


3 – Mentor

Pass.


2 – 365 Days

Það þarf að skrapa ansi lágan botn til að maður þurfi að íhuga betur listrænt þemagildi fyrstu Fifty Shades of Grey kvikmyndarinnar. Í samanburði við 365 Days lítur Grey út eins og upplífgandi, heilsteypt og þýðingarmikið dramaverk um losta og persónuleg takmörk. Sögurnar eru óneitanlega líkar á marga vegu þegar eitur sambands og hegðunarmynstur karldýrsins er skoðað til fulls á meðan eina sem nokkru máli skiptir er útfærsla erótískra sena.

Kynlífssenurnar ná aldrei tilætluðum loga þegar persónudýnamíkin sem að þeim leiðir er heil krukka af viðbjóði og ofbeldi. Það hvort leikararnir séu trúverðugir og flottir með eða án spjara skiptir litlu í ljósi þess hvað grunnhugmyndin byggir á ógeðfelldri glamúríseringu á hinu fræga Stokkhólmseinkenni – og seiglu eins skíthæls sem svífst einskis til að eigna sér réttu konuna. Æsandi stöff! Og kemur satt að segja mest á óvart að helsta kvenpersóna myndarinnar fái að vera nafngreind.

Myndin er líka hundlöng, með ólíkindum langdregin, skítfull af endurtekningum, uppfyllingum og stílblæti af verstu sort.
Samkvæmt mælitölum Netflix er 365 Days vinsælasta mynd streymisins á síðasta ári, en undirritaður vonar að stór hluti þeirrar niðurstöðu sé af völdum fast-forward takkans. Heppilega er veraldarvefurinn snappfullur af vafasömum valdafantasíum til þess að þurfi ekki að saurga streymisaðganginn með taktlausu og ósexý tímaskekkjusulli í líkingu við þessa mynd.


1 – Dolittle

Ef fullyrða má að eitthvað hafi farið hreinlega úrskeiðis með The Witches bíómyndina, væri slík niðurstaða þó óskandi hvað Dolittle varðar. Hér er nefnilega prýðisdæmi um meinta fjölskylduafþreyingu sem varla mætti kalla kvikmynd í klassískum skilningi orðsins. Dolittle reynir að hverfa aftur til róta upprunalegu bókanna (sem Eddie Murphy-myndirnar gerðu t.a.m. ekki) í umfangi og sögusviði, en hvort erfið eftirvinnsla eða almennt misreiknað handrit hafi gert illt verra á endanum er einkennilegt spursmál.

Dolittle er forljótt samanssafn glataðra tæknibrellna, sundurtættra sena, pínlegra gestahlutverka og veður myndin úr einu í annað eins og hauslaus kjúklingur með 80 sárar mínútur eftir ólifaðar. Allt sem á að kallast sjarmi, spenna, gaman eða undur steingleymdist í þessari uppskrift og þarf virkilega að brjóta heilann til að muna hvenær Robert Downey Jr. gerði sig síðast að svona miklu fífli á hvíta tjaldinu. En sorglega staðreyndin er þá auðvitað sú að Downey hlær betur en nokkur áhorfandi (börn meðtalin), enda launaseðill hans fyrir myndina langstærsti djókurinn.

Fleiri vondar:

Amma Hófí
Bloodshot
The Tax Collector
Like a Boss
Antebellum
Coffee & Kareem
Spenser Confidential
Scoob!
Project Power
The New Mutants