Bíómyndir sem mætti gjarnan endurgera

Ef litið er yfir vinsældalista undanfarin ár og þeir miðaðir við vinsældalista t.d. fyrir 20-30 árum þá virðist Hollywood í dag mun duglegra að gera endurgerðir, framhöld og aðlagaganir en áður. Það mætti jafnvel halda að draumasmiðjan virðist yfir höfuð vera hætt að nenna því að vera frumleg og kjósi frekar að „cash in“ á fyrirframþekktum sögum, í það minnsta þegar kemur að vinsælustu myndunum.

Endurgerðir er samt eitthvað sem Hollywood hefur verið duglegt að stunda frá upphafi. T.d. má nefna að sjálfur Alfred Hitchcock endurgerði sína eigin mynd The Man Who Knew Too Much frá 1934 rúmum 20 árum seinna (m.a. sökum þess að hann var ekki nógu sáttur með upprunalega myndina). Þetta er ekkert nýtt. En það sem er athugavert við þessa endurgerðarárráttu er að það er alltaf verið að taka gamlar og góðar myndir og reyna að láta eldingu slá niður tvisvar.

Það þarf auðvitað ekkert að vera slæmt, ákveðnar sögur getur verið áhugavert að uppfæra í nútímann og sjá hvaða erindi þær eiga og einstaka sinnum eru endurgerðirnar jafnvel betri en frummyndin (t.d. Ocean’s Eleven eða The Fly), en yfirleitt er bara verið að taka eitthvað gott og skemma það. En hvað með þetta: Af hverju ekki taka góða hugmynd sem var klúðrað, og gera hana almennilega? Ég hef aldrei skilið af hverju Hollywood er ekki duglegra að endurgera lélegar myndir sem hefðu geta verið miklu betri, og reyna að gera betur! Ef sjálfur Hitchcock gerði það, hvað er að stoppa alla aðra frá því að gera það?

Hér koma nokkrar hugmyndir að myndum sem ég tel að væri tilvalið að endurgera. Sumar þessara mynd eru svosem alveg þokkalegar á meðan aðrar eru algjört drasl, en allar eiga þær sameiginlegt að vera byggðar á skemmtilegri og sniðugri hugmynd og nýta hana alls ekki nógu vel. Í öllum tilvikum ætti ekki að vera það mikið mál að gera betur og því ekki að reyna aftur?


Jumper (2008)

Hugmyndin á bak við Jumper er stórskemmtileg og býður upp á endalausa möguleika af fjöri: Maður uppgötvar að hann hefur hæfileika til sjálf-teleporta sig hvert sem hann vill. Svo kemur í ljós að fleiri hafa þessa hæfileika og mismunandi óprúttnir aðilar vilja nýta þessa hæfileika hans í vafasama hluti. Því miður var Jumper frekar slöpp ræma sem nýtti hugmyndina illa og drukknaði í klisjum og heimskulegum hasar. Hún er því tilvalin til endurgerðar því það er lítið mál að gera betur. Fyrsta skrefið væri þá að fá einhvern annan en Hayden Christensen til að leika aðalhlutverkið. Það má reyndar að nefna að fyrir stuttu voru gerðir þættir úr sama hráefni (myndin var byggð á bókaseríu) en það var fór svo lítið fyrir þeim að ég vissi einu sinni af tilvist þeirra fyrr en nú, þannig að líklega voru þeir ekki góðir.


Idle Hands (1999)

Menntaskólanemi lendir í því að önnur höndin hans fær sjálfstæðan vilja og byrjar að valda gríðarlegum usla. Þetta hefði geta verið algjör snilld, eins og einhvers konar blanda af Evil Dead og Heathers. En í staðinn var þetta meira eins og blanda af beint-á-vídjó rip-off af þessum myndum – snauð hugmyndaflugi og uppfull af lélegum aulahúmor. Kannski fínt ef maður er 10 ára en það væri gaman að sjá útgáfu af þessari hugmynd sem virkar líka á fullorðið fólk, sérstaklega þar sem hún var bönnuð innan 16!


Delirious (1991)

Delirious fjallar um sápuóperuhöfund sem rotast og vaknar í heimi sápuóperunnar sem hann skrifar. Hann áttar sig að hann getur haft áhrif á söguna með því að endurskrifa hana og fer að nýta sér það. Frábær hugmynd en gerð af takmörkuðu ímyndunarafli og sjaldan eins snjöll og hún gæti verið. Enn og aftur lítið mál að gera betur! Hér er príma efniviður í Charlie Kaufman-esque sýru sem gæti vakið ýmsar existensjalískar spurningar en líka farið út í algjöra vitleysu og komist upp með það. Og þótt vitleysan í Delirious sé mikil þá var lítið vit í vitleysunni, það verður nefnilega að gera vitleysu með smá viti til að hún virki almennilega.


In Time (2011)

Áhugaverð vísindaskáldskapshugmynd: Hvað ef tíminn er bókstaflega peningar? Og hvað ef þú þarft bókstaflega að vinna til að lifa? Og hvað ef þeir einu sem ná að lifa lengi eru ríkisbubbarnir sem fá allt í hendurnar? Verst hvað niðurstaðan er kjánaleg hérna. Hún hefði annaðhvort átt að vera mun ýktari og allt að því kómísk, eða mun lúmskari (e. Subtle) með myndlíkingarnar og allegóríuna. Í staðinn var hún hvorki né og rétt svo hélst saman á skemmtilegu konsepti og ágætis casti. Um að gera að endurgera þessa mynd og í þetta skiptið ákveða sig hvort þetta eigi að vera full-on satíra eða mjög alvarleg allegoría, en ekki eitthvað óljóst miðjumoð.


Van Helsing (2004)

Van Helsing: Monster Hunter! Þetta hefði geta verið stórskemmtileg mynd, sérstaklega úr smiðju sama manns og gerði The Mummy. En því miður reyndist hún vera kjánalegt drasl með lélegum tæknibrellum og einhæfum hasar og gerir í raun ósköp lítið sniðugt með hugmyndina Það er synd og skömm hvað Sommers tókst að klúðra þessu, og því má endilega reyna aftur. Góðir kandídatar í verkið væru t.d. Sam Raimi, Joss Whedon eða James Gunn.



Super Mario Bros/Street Fighter (1993/1994)


Það virðist nánast vera regla að myndir gerðar eftir tölvuleikjum séu vondar og sá tónn var settur með fyrstu myndunum sem við fengum byggðar á tölvuleikjum: Super Mario Bros og Street Fighter. Báðar almennt taldar mjög slæmar myndir (þó ég hafi lúmskt gaman að SMB) og floppuðu hart á sínum tíma. En þótt flestar myndir byggðar á leikjum séu drasl er ekki þar með sagt að það sé alveg vonlaust og ég tel það sé alveg hægt að gera gott og af hverju ekki fara aftur í uprunann og reyna aftur við Super Mario Bros eða Street Fighter?

Sú seinni ætti sérstaklega að geta auðveldlega verið góð mynd, þarf bara að gera upp snemma fyrir hverja hún er og hvernig hún ætti að vera en ég legg til að hún ætti bara að vera fyrir fullorðna, Van-Damme-málið við gömlu myndin var aðallega að hún var of mikið að reyna að vera fyrir börn og unglinga þrátt fyrir allt ofbeldið og það kom bara afkáralega út. Svipað með Super Mario Bros sem var í senn að reyna að vera fjölskylduskemmtun og líka “gritty” sci-fi mynd, en myndi eflaust virka ágætlega sem bara annað af þessu tvennu. Street Fighter hafði líka allt of flókinn söguþráð, eina sem þarf er einhver einföld afsökun við að koma öllum þessum karakterum á einn stað og svo láta þá berjast!


Waterworld (1995)

Hið alræmda flopp sem var í raun ekki það mikið flopp og heldur ekki það slæm. Hún fékk þokkalega dóma og var ágætlega vinsæl, en var bara það dýr að hún tapaði samt pening. Sem þýðir að ef hún verður endurgerð verður hún varla alfarið tekin upp á rúmsjó, sem er leitt þar sem eitt það besta við hana er einmitt sá hluti hennar – ekkert feik við það að þau eru föst úti á sjó! En þótt myndin hafi ekki verið það slæm þá hefði samt verið hægt að gera sniðugri hluti með hugmyndina – t.d. ef pólarnir myndu raunverulega bráðna myndi í raun margt standa upp úr sjónum, öll fjöll og allir skýjakljúfar t.d. Og það vil ég sjá! Í þeim heimi myndu öll vondu gengin vera með bækistöðvar á toppi Burj Khalifa, Empire State Building eða Everest á meðan hin undirokuðu eru föst úti á sjó. Það væri jafnvel hægt að gera fína sjónvarpsþætti úr þessu.


Timecop (1994)

Timecop var ein besta (e. skásta) Van Damme myndin og alveg ágætis afþreying, en ekkert meira en það. Ég held það væri mjög áhugavert að sjá endurgerð sem myndi ganga lengra með þessa hugmynd þar sem áhugaverðasti partur þeirrar myndar var þegar aðalhetjan fer aftur í nútíma sinn og hittir konu sína lifandi eftir að hafa komið í veg fyrir dauða hennar og krakkann þeirra sem hann hefur aldrei hitt áður og þekkir ekki neitt. Hvernig dílaði hann við það? Lýgur hann að krakkanum og þykist eins lengi og hann getur eða segir hann þeim sannleikann? Og hvað varð um þann Van Damme sem upplifði þennan veruleika? Þetta eru spurningar sem vert er að skoða…


Last Action Hero (1993)

Margir eru á því í dag að þessi mynd sé vanmetin, en ég er ekki einn af þeim og skil vel hvers vegna hún floppaði. Vandamálið er að myndin virðist ekki geta ákveðið hvað hún á að vera, stundum er hún fáránlega silly og stundum er hún allt að því gritty. Það er eins og menn hafi ekki þorað að ganga alveg alla leið og á endanum verður hún eiginlega í það sem hún er að gera grín að. Grínið er samt stundum gott en ekki alltaf, mafíujarðafararsenan er t.d. bara einn mjög teygður prumpubrandari. En konseptið á bak við myndina er frábært og það er tilvalið að reyna aftur og þá ákveða hvernig mynd þetta á að vera og halda sig við það. Ég held nú að sjálfur Dwayne Johnson sé síðan fullkominn til að leika síðustu hasarmyndahetjuna í dag (og auðvitað verður að vera cameo frá Neggernum).


Chopping Mall (1986)

Ungmenni festast í verslunarmiðstöð og þurfa að berjast við róbóta með sjálfsmeðvitund sem reyna að drepa allt sem verður á vegi þeirra. Þetta er mjög ostakennd b-mynd sem þóttist ekki vera neitt meira en hún var og því lítið við hana að saka fyrir að vera drasl. En það væri samt gaman að sjá þessa hugmynd gerða með stærri budget, góðum leikurum og aðeins meiri hugmyndaauðgi. Það er í raun fullt af cheesy 80s b-myndum sem hægt er að segja það sama um (t.d. Critters, Waxwork, My Science Project, Maximum Overdrive og fl.) og ég myndi frekar vilja sjá runu af þannig endurgerðum heldur en reboot af hinum og þessum seríum.

Fleiri sem má endurgera:
The Blob, A Sound of Thunder, Alien Vs. Predator, The Shadow, Multiplicity, Tank Girl, Johnny Mnemonic, The Relic, Dreamscape og fl. o.fl.