Stella sýnd í endurbættri útgáfu

Óhætt er að fullyrða að gamanmyndin og frasaveitan Stella í orlofi sé einhver ástsælasta perla íslenskrar kvikmyndasögu. Nýverið hafa aðstandendur myndarinnar tekið hana í gegn með því að hreinsa upp hljóð og mynd sem hefur skilað sér í útgáfu sem nýtur sín ótrúlega vel á stóru tjaldi. Að þessu tilefni ætlar Smárabíó að endurfrumsýna myndina í þessum gæðum.

Fyrir alla sem ekki vita fjallar gamanmyndin um Stellu Löve og baráttu hennar við geðillsku karla, tryllt börn, alkóholista, flugmenn, Læjonsklúbbinn Kidda, danskar drósir og laxeldi. Georg ætlar að fara í veiðiferð með erlendum viðskiptafélaga. En þegar hann handleggsbrotnar og endar á spítala ákveður Stella konan hans að taka til sinna ráða.

Þá fer Stella á flugvöllinn og finnur Salomon sem er viðskiptafélagi Georgs og fer með hann í veiðiferð í Selá. En Salomon er alls ekki viðskiptafélagi Georgs. Hann er alkóhólisti og er kominn til Íslands til að fara í meðferð hjá SÁÁ. Út af þessum misskilningi fara Salomon, Stella og börnin hennar öll í veiðiferð í Selá.

Myndin verður endurfrumsýnd 12. júní, en daginn áður verður sérstök partíforsýning á myndinni þar sem hitað verður upp með skemmtilegu PubQuiz í anddyri bíósins. Spurningarnar verða tengdar myndinni og frábærir vinningar í boði. Viðburður þessi er samstarfsverkefni Senu og Kvikmyndir.is

Takmarkað framboð miða verður á partíforsýninguna, þannig að allir einstaklingar sem vilja láta ljós sitt skína í Stellu PubQuiz-inu eru hvattir til að skella sér inn á vefsíðu Smárabíós og tryggja sér miða á meðan sæti eru laus. Með tillit til aðstæðna í ljósi kórónuveirunnar verður selt í 200 sæti í stærsta sal kvikmyndahússins.

Nánari upplýsingar um viðburðinn eru að finna á Facebook-síðu viðburðarins.