Flottur endir á góðum þríleik

Saga Hiksta og dreka hans Tannlauss heldur áfram og ár er liðið síðan farsæl lending náðist í sameiningu manna og dreka í heiminum. Hiksti ásamt sínu fríða víkingaföruneyti heldur áfram að frelsa dreka í ánauð og fyrr en varir er „útópía“ þeirra orðin helst til of fjölmenn. En drekarnir eru ekki lausir úr allri hættu því óvætturinn Grimmel hyggst halda áfram veiðum sínum og beinir sjónum sínum að Tannlausum sérstaklega þar sem hann er síðasti sinnar tegundar. Hiksti kemst á snoðir um hulinn heim dreka og heldur af stað í leit að honum. Og á meðan finnur Tannlaus sér kærustu.

Þessi þríleikur frá Dreamworks Animation er með þeim betur heppnuðu og sagan hér fær viðeigandi endi til að slútta öllu á eftirminnilegan máta. Vinátta Hiksta og Tannlauss er voða tær og gaman hefur verið að fylgjast með þeim ná saman og verða órjúfanlegur dúett í baráttu gegn grimmd, fáfræði og ánauð og stuðla að frelsi og samlyndi ólíkra tegunda. Ekki spillir fyrir að öll tæknivinna er óaðfinnanleg og þessi tilbúni heimur er hreint stórkostlegur sjónrænt séð. Hasarinn er gríðarlega vel útfærður og allar myndirnar gæta þess að keyra söguna áfram á skikkanlegum tíma. Það þýðir þó ekki að hraðinn komi niður á gæðum sögunnar en þessi þríleikur er heilt yfir ein góð heild.

Hiksti og Tannlaus

Þegar hér er komið við sögu færist dramatíska þungamiðjan talsvert yfir á drekann Tannlausan. Nýfengið frelsi allra drekanna kallar á aðra lausn en þröngt samfélag á eyjunni Berk og ljóst er að nýrra heimkynna er þörf. Þeir munu aldrei vera lausir úr hættu frá drekaveiðurum og hulduheimur þeirra virðist hin fullkomna lausn. Tannlaus finnur einnig fyrir þörfinni fyrir að vera meira en bara samferðamaður Hiksta og tilkoma kvenkyns dreka af sömu tegund kveikir heldur betur í honum.

Það er nánast ekkert hægt að finna að „Að temja drekann sinn 3“. Hún klárar söguna á eftirminnilegan hátt og gefur forverum sínum ekkert eftir og nógu góðir voru þeir. Sagan hægir vel á sér um miðbikið og gefur bæði Tannlausi og Hiksta mikið svigrúm í þróa sig áfram og finna út næsta leik sinn í tilverunni. Á endanum verður svo hörku uppgjör með tilheyrandi vel útfærðum hasar og þokkalegum skammti af væmni í lokin. En persónurnar (menn og drekar) hafa þegar unnið hug og hjörtu áhorfandans og því er innstæðan mikil fyrir væmninni í lokin.

Þess ber að geta að rýnir sá myndina með íslenskri talsetningu og henni ber að hrósa til hins ýtrasta. Sú var tíðin að fullorðnir töldu sig grátt leikna að þurfa að komast í gegnum talsetta útgáfu af bandarískum teiknimyndum en íslensku leikararnir leggja sig alla fram í að gefa persónunum mikinn karakter og mikla tilfinningu og það skilar sér heldur betur.