Kongens nei fjallar um viðbrögð og svar Noregs konungs (og ríkisstjórnar) þegar nasistar réðust inn í Noreg 9. apríl 1940. Myndin gerist á þremur dögum og byrjar daginn áður en nasistar réðust inn. Hákon konungur hafði verið konungur Noregs í 35 ár og er kominn vel á aldur. Þegar Norðmenn fengu sjálfstæði frá Svíþjóð 1905 var ákveðið eftir kosningar að taka upp konungsdæmi með þingbundinni stjórn. Þjóðin kaus sér konung og hafði konungurinn lítil völd. Það hentaði Hákoni vel því ólíkt bróður sínum, Christian X Danakonungi, var Hákon lýðræðissinni. En þar sem ríkisstjórnin var varla við völd þessa daga þá var það konungurinn sem þurfti að taka ákvörðun um svarið. Þjóðverjar sögðust vilja vernda Noreg frá Bretlandi en þar sem Noregur barðist á móti var því svarað með sprengjum og skothríð.
Öllu þessu og fleiru er gerð góð skil í myndinni. Upphaf myndarinnar eru alvöru upptökur af því þegar Hákon stígur á land í Noregi sem konungur landsins 1905 og endar á upptökum þegar konungurinn kom til baka eftir útlegð í Bretlandi. Myndin sjálf byrjar á að sýna konunginn í feluleik við barnabörnin og erfitt er að gera upp við sig hver skemmtir sér best; barnabörnin eða afinn. Þetta atriði er lýsandi fyrir myndina því áhorfendur fá ekki bara að kynnast konunginum sem stendur beinn í baki heldur líka afanum, pabbanum og eldri manninum sem er hræddur, þreyttur og bakveikur.
Norski herinn var að berjast við stóran her Þjóðverja og vissu þeir að það var ekki möguleiki á að þeir gætu unnið. En þar sem Þjóðverjar voru á eftir konunginum og ríkisstjórninni þá gerði herinn sitt allra besta til að tefja fyrir Þjóðverjunum svo konungurinn og konungsfjölskyldan kæmust í burtu. Hræðsla, sorg og hugrekki persónanna kemur vel fram í myndinni og myndatakan er góð. Sjálf upplifði ég myndina stundum eins og ég væri viðstödd og er það aðeins hægt með góðri myndatöku og klippingu. Verð að viðurkenna að ég þekki hvorki til leikarana né leikstjórans en allir skiluðu sínum hlutverkum vel frá sér.
Þar sem Hákon var danskur þá talaði konungurinn dönsku í myndinni en Norðmenn norsku og Þjóðverjar að sjálfsögu þýsku. Í byrjun myndarinn var þetta pínulítið ruglingslegt en eftir nokkrar mínútur þá hætti ég að taka eftir þessu því flæðið og söguþráðurinn er mjög góður (og vel textað). Satt best að segja hef ég verið lengi að bíða eftir mynd sem þessari því söguþráðurinn er annar en sem við eigum að venjast þegar kemur að myndum um seinni heimstyrjöldina og er ég ánægð með útkomuna. Þessa mynd ætti að sýna í sögutímum í skólum.