Flestir ættu að kannast við gamanmyndina frábæru Groundhog Day, en þar lifði veðurfræðingur sem Bill Murray lék, leiðinlegasta dag ársins aftur og aftur í sífellu. Síðan þá hefur Hollywood notað sömu hugmynd nokkrum sinnum og er þar skemmst að minnast Tom Cruise og Emily Blunt myndarinnar Edge of Tomorrow, þar sem Cruise fer í bardaga og deyr aftur og aftur, og myndarinnar Source Code.
Nú er enn mynd á leiðinni sem notar nákvæmlega sömu hugmyndina og Groundhog Day, þ.e. að manneskja vaknar aftur og aftur á sama deginum, og ákveður að lokum að nota þetta einstaka tækifæri til að láta eitthvað virkilega gott af sér leiða.
Myndin heitir Before I Fall og er byggð á samnefndri skáldsögu Lauren Oliver. Leikstjóri er Ry Russo-Young.
Myndin segir frá persónu sem leikin er af Evereybody Wants Some!! aðalleikkonunni Zoey Deutch. Miðskólinn er að klárast, og kvöld eitt lendir hún í bílslysi og vaknar síðan upp þann sama dag aftur og aftur og aftur.
Aðrir helstu leikarar eru Halston Sage, Logan Miller, Kian Lawley, Elena Kampouris, Diego Boneta, Jennifer Beals, Cynthy Wu og Medalion Rahimi.
Söguþráðurinn er þessi í meiri smáatriðum: Hvað ef þú hefðir einn dag þar sem þú gætir breytt öllu? Samantha Kingston er með allt sitt á hreinu. Hún á fullkomna vini, frábæran kærasta og framtíðin er björt. En svo breytist allt. Eftir örlagaríka nótt, þá vaknar Sam og framtíðin er horfin. Hún er föst innan sama dagsins, og fer að spyrja sig út í hversu fullkomið líf hennar hafi verið í raun og veru. Einnig fer hún að gefa fólkinu í kringum sig gaum og velta fyrir sér hvernig það hafi það, og hvort hún geti látið gott af sér leiða.
Myndin er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum 3. mars nk.
Sjáðu fyrstu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan: