Hagatorgi, 107 Reykjavík
Sími: 530-1919
www.haskolabio.is
Í Háskólabíó eru 7 misstórir fyrirlestrarsalir sérhannaðir fyrir fundi og fyrirlestra, sá minnsti 23 sæta og sá stærsti 970 sæta, samtals 1891 sæti. Í öllum sölunum eru þægilegir stólar, í sumum felliborð og hallandi gólf og veitir það þátttakendum bestu aðstæður til að fylgjast með fyrirlesurum og myndefni á tjaldi. Gott aðgengi er fyrir fatlaða í öllu húsinu. 700 bílastæði eru umhverfis húsið.
Háskólabíó tók til starfa árið 1961 og var til að byrja með einn salur í húsinu sem var tekið fagnandi af kvikmyndaþyrstum landsmönnum. Árið 1989 var byggt við húsið og fjórir minni salir voru teknir í notkun með samtals 840 sætum.
Þann 1. maí 2007 tók Sena við rekstri kvikmyndasýninga í Háskólabíói. Húsið gekk í gegnum miklar endurbætur sem miðuðu að því að bæta aðgengi og þægindi bíógesta. Að auki voru sýningatæki endurnýjuð og er bíóið nú búið fyrsta flokks stafrænum sýningarbúnaði í öllum sölum.
Háskólabíó býður upp á möguleika fyrir beinar útsendingar. Aðdáendum klassískra viðburða til mikillar ánægju hefur bíóið verið leiðandi í beinum útsendingum frá heimsklassa óperu-, dans- og tónlistarhúsum. Hægt er að lesa nánar um klassískar útsendingar hér .
Háskólabíó hefur í gegnum árin verið heimili íslenskra kvikmynda og listrænna gæðamynda frá öllum heimshornum auk þess sem hér eru sýndar stórar vinsælar myndir um leið og þær koma út. Háskólabíó hýsir árlega ýmsar kvikmyndahátíðir, til að mynda Franska kvikmyndahátíð í upphafi hvers árs.
Háskólabíó hefur ríka sögu og mikla sál. Gestir upplifa einstakt andrúmsloftið og njóta þess fram í fingurgóma að horfa á góðar kvikmyndir í Háskólabíói.
Aðgengi fyrir hjólastóla í alla Sali.