Stuttmyndir óskast í Sprettfiskinn

Stockfish Film Festival óskar eftir stuttmyndum í stuttmyndakeppnina Sprettfiskinn. Hámarkslengd stuttmynda er 30 mínútur og mega þær ekki vera eldri en eins árs þegar Stockfish-hátíðin verður haldin 18.-28. febrúar 2016. Myndir þurfa að hafa verið fullunnar 18. febrúar 2015 eða síðar. sprettfiskur

Aðeins þær myndir koma til greina sem eru gerðar af íslenskum leikstjórum og/eða framleiðendum.

Frumsýningarkrafa er á innsendum myndum sem þýðir að stuttmyndirnar mega hvorki hafa verið sýndar í kvikmyndahúsum né öðrum hátíðum á Íslandi. Undanskyldar eru skólasýningar sem og myndir sem hafa verið sýndar erlendis.

Stockfish-hátíðin var haldin í fyrsta sinn síðastliðinn febrúar og gekk hún vonum framar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Á sjöunda þúsund manns sóttu hátíðina og þar af var fjöldi erlendra kvikmyndagerðarmanna og blaðamanna en eitt helsta markmið hátíðarinnar er að leiða saman íslenska og alþjóðlega kvikmyndagerðarmenn.

Stuttmyndin Foxes hlaut Sprettfiskinn 2015, sem Mikel Gurrea leikstýrði og Eva Sigurðardóttir og Askja Films framleiddu. Foxes fjallar um ungan fasteignasala sem á rigningarsömu kvöldi í London þarf að sjá um tíu ára son sinn meðan hann reynir að ljúka stórri sölu. Feðgarnir eiga í erfiðum samskiptum en á meðan á þessu gengur eltir dularfullur refur þá um.

Í umsögn dómnefndar segir að Foxes sé heilsteypt og einlægt verk sem á erindi við nútímann. „Næmni höfundar fyrir persónusköpun er áþreifanleg, um leið og leikstjórn er sannfærandi og örugg. Í einfaldri sögu er dregin upp mynd af raunveruleika sem ófáir munu kannast við“.

Skilafrestur er 10. janúar 2016. Sérstök valnefnd kvikmyndagerðarmanna mun fara yfir allar innsendar myndir.

Fimm myndir verða valdar inn á hátíðina og ein þeirra mun hljóta verðlaunin Sprettfiskur 2016. Tekið er á móti myndum á shorts@stockfishfestival.is. Nánari upplýsingar má finna hér.