RIFF hefst í kvöld

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, hefst í kvöld og lýkur 5. október. Opnunarmynd hátíðarinnar í ár er íslensk/bandaríska kvikmyndin Land fyrir stafni (e. Land Ho!) en myndin skartar meðal annars íslensku listakonunni Alice Olivia Clarke í einu af mikilvægari hlutverkum myndarinnar.

Við munum fylgjast grannt með því sem fer fram á hátíðinni og þá sérstaklega með þeim íslensku kvikmyndum sem sýndar verða. Við viljum einnig benda lesendum á að við höfum sett dagskrá hátíðarinnar á vefinn okkar. Þar er hægt að kynna sér myndirnar sem sýndar verða og sýningartíma fyrir hverja mynd.

10687282_10152254941946386_1169688777875001810_o

Í kvöld mun einnig hin árlega gusa fara fram fyrir sýningu, en það er kvikmyndagerðarkonan Ása Hjörleifsdóttir, sem mun sjá um þennan lið í ár. Gusunni er best lýst sem skilaboðum kvikmyndaiðnaðarins til ríkjandi stjórnvalda.

Yfir hundrað myndir eru í boði á hátíðinni í ár. Þá munu tólf alþjóðlegar kvikmyndir keppa um Gullna lundann í ár. Ítalskar kvikmyndir verða svo í brennidepli auk þess sem fjöldi stuttmynda verða sýndar, þar á meðal á annan tug íslenskra stuttmynda sem hafa vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum víða um heim síðustu vikur.

Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru tveir. Það eru þeir Mike Leigh, en nýjasta mynd hans, Mr. Turner verður sýnd á hátíðinni auk eldri verka, og svo Ruben Östlund, sem er frá Svíþjóð. Hann verður með myndina Túristi, auk þess sem eldri myndir verða sýndar með þessum meisturum. 

Stikk: