Fjallabræður fjármagna heimildarmynd með óvenjulegum hætti

Um helgina fór af stað hópfjármögnun fyrir heimildarmynd um Fjallabræður sem verður frumsýnd á Heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði, helgina 6.-9. júní. Nú þegar hefur safnast um 50.000 krónur af 400.000 kr. markinu sem þarf til að ná endum saman og klára myndina.

Hópfjármögnunin gengur út á það að hægt sé að heita smá pening á verkefnið og fá að launum verðlaun til baka, allt frá bíómiðum, DVD eintökum af myndinni, árituð plagöt af Fjallabræðrum, persónulegar afmæliskveðjur og upp í það að fá að mæta á æfingu með Fjallabræðrum og æfa með þeim og svo eru stærstu verðlaunin að fá einkatónleika með Fjallabræðrum.

fjallabræður

Heimildarmyndin fjallar um tónleikaferðalag Fjallabræðra, vestur á Ísafjörð um páskana 2013, þegar kórinn hélt gríðalega stóra og velheppnaða tónleika í Íþróttahúsinu á Ísafirði, ástamt því að koma fram á Aldrei fór ég suður með Röggu Gísla.

Það er vestfirska kvikmyndafélagið Gláma sem framleiðir myndina og Eyþór Jóvinsson leikstýrir, en þetta er hans fyrsta heimildarmynd. Áður hefur hann gert nokkrar stuttmyndir, meðal annars Sker sem hefur vakið mikla athygli á erlendum kvikmyndahátíðum í ár.

Allar frekari upplýsingar um söfnunina og myndina má sjá á vefsíðu Karolina Fund: https://www.karolinafund.com/project/view/374