Reykjavík Shorts&Docs Festival verður haldin í 12. sinn daganna 3.-9. apríl í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum. Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða fjöldi annarra viðburða á hátíðinni.
Stilla úr stuttmyndinni Eylíen.
Í ár verða veitt áhorfendaverðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina á Reykjavík Shorts&Docs Festival. Þetta er í fyrsta sinn sem áhorfendaverðlaun eru veitt á hátíðinni en alls keppa 11 íslenskar stuttmyndir og stuttar heimildamyndir um verðlaunin.
Íslensku stuttmyndirnar eru sjö talsins og verða sýndar saman en stuttu heimildamyndirnar eru fjórar og verða sýndar saman á Reykjavík Shorts&Docs Festival í Bíó Paradís 3. -9 apríl nk. Áhorfendaverðlaunin verða veitt sigurvegaranum á lokakvöldi hátíðarinnar 9. apríl í Bíó Paradís.
Íslenskar stuttmyndir (titlar í stafrófsröð):
Eylíen
Magnús er einstæður faðir. Dóttir hans Sóley elskar geimverur. Magnús þarf að fara óhefðbundnar leiðir til að segja dóttur sinni frá breytingum sem eru í vændum sem mun hafa mikil áhrif á líf þeirra.
Leikstjóri: Gunnar Gunnarsson
Fagnaðarerindið
Ungur trúleysingi fær heimsókn frá tveimur trúboðum. Hann losar sig via þá en í kjöfarið tara ýmsir undarlegir hlutir að gerast. Hann fer að sjá undarleg tákn víða og veit ekki hvernig hann á að lesa í þau. Er einhver að rugla í honum eða er Guð virkilega að reyna að ná sambandi við hann?
Leikstjóri: Atli Sigurjónsson
GABRIELLA
Myndin fjallar um Gabriellu sem er að reyna að finna sjálfa sig á ný. Hún þarf að horfast í augu við fortíðina svo hún geti orðið hún sjálf aftur.
Leikstjóri: Gunna Helga Sváfnisdóttir & Sigga Björk Sigurðardóttir
Gláma
Kokkur er ráðinn til að elda í stórri veistu í afskekktu sumar hóteli að vetri til á Vestfjörðum. Þegar þangað er komið áttar hann sig fljótlega á því að ekki er allt með felldu og fljótlega fara ýmsir undarlegir atburðir að gerast.
Leikstjóri: Baldur Páll Hólmgeirsson
Leitin af Livingstone
Leitin að Livingstone segir frá Þór og Denna sem leggja af stað í leiðangur um Suðurlandið í leit að tóbaki en allt tóbak í borginni er uppurið vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Áhorfandinn kynnist þessum kláru en klaufalegu félögum á ferðalaginu og örvæntingarfullri leit þeirra að tóbaki, sem þeir trúa stöðugt að sé handan við hornið.
Leikstjóri: Vera Sölvadóttir
Sker
Sönn saga um kajakræðara sem fer í siglingu á Vestfjörðum sem rær að skeri. Hann ákveður að leggja kajakinum og fara á skerið en kemst fljótlega að því að það var kannski ekki svo góð hugmynd.
Leikstjóri: Eyþór Jóvinsson
TOOTH FOR A TOOTH
Ung stúlka er numin á brott gegn vilja sínum og bundin við stól á ókunnugum stað. Yfirheyrsla hefst og smám saman, fara hlutirnir að skýrast á sársaukafullan hátt.
Leikstjóri: Aríel Jóhann Árnason
Stuttar íslenskar heimildamyndir (titlar í stafrófsröð):
Behind the Frost
Það krefst hugrekkis að gera bíómyndir á Íslandi í dag. Að gera kvikmynd á jökli í janúar krefst jafnvel enn meira hugrekkis. Í þessari stuttu heimildamynd fylgjumst við með kvikmyndatökum á sci-fi thrillernum Frost. Kjarnakonur og menn í erfiðum aðstæðum bjóða þér að slást í hópinn og fylgjast með.
Leikstjóri: Guðni Rúnar Gunnarsson
Herd In Iceland
Herd in Iceland fjallar um íslenska hestinn og hestamenningu Íslendinga en íslenski hesturinn á veigamikinn sess í íslenskri menningu, listum og hefðum. Í yfir 1000 hefur innflutningur á hestum verið bannaður á Íslandi og því hefur íslenski hesturinn verið einangraður frá blöndun við aðrar hestategundir.
Leikstjórar: Lindsay Blatt & Paul Taggart
Holding Hands For 74 Years
Holding Hands for 74 Years er ástarsaga. Sagan hefst í Reykjavík 1939 þar sem við kynnumst Lúðvík og Arnbjörgu. Við kynnumst hvernig æskuást þeirra þroskaðist og dafnaði í 74 ár. Það er einstakt að eiga sama lífsförunaut svo lengi og fáir fá að verða þeirrar gæfu og ástar aðnjótandi.
Leikstjóri: Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir
Mundi
Saga um venjulegan mann í venjulegu húsi sem lifir venjulegu lífi.
Leikstjóri: Logi Ingimarsson