Lesendur Movie Maker Magazine völdu Reykjavík Shorts & Docs Festival meðal fimm svölustu stuttmyndahátíða heims nýverið. Kosningin fór af stað í sumar og niðurstöðurnar voru kynntar í vikunni. Fjórar aðrar stuttmyndahátíðir deila titlinum með Reykjavík Shorts & Docs Festival en það eru DC Shorts Film Festival, Couch Fest Films, Miami Short Film Festival og The Smalls Film Festival.
Reykjavík Shorts & Docs Festival skaut nokkrum þekktum hátíðum ref fyrir rass í valinu eins og Palm Springs International ShortFest, Hollywood Shorts Film Festival og Aspen Shortsfest svo einhverjar séu nefndar, en þessar hátíðir komu til greina í kosningu Movie Maker Magazine fyrr á þessu ári.
,,Þetta er mikill heiður fyrir Reykjavík Shorts & Docs Festival og það er von mín að þetta styrki hátíðina og muni hjálpa henni að vaxa enn frekar. Við hlökkum til að bjóða áhorfendur velkomna á næstu hátíðina okkar sem verður haldin í Bíó Paradís 3.-9. apríl næstkomandi,” segir Heather Millard, stjórnandi Reykjavík Shorts & Docs Festival.
Tólfta Reykjavík Short & Docs hátíðin verður haldin dagana 3.-9. apríl 2014. Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða pallborðsumræður, vinnusmiðjur og fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Tekið er á móti kvikmyndum á hátíðina til miðnættis þann 15. desember næstkomandi á heimasíðu hátíðarinnar.