Norðmenn eru öflugir kvikmyndagerðarmenn og nú er á leiðinni frá þeim nýr sögulegur fortíðartryllir sem leitar fanga í Norrænni goðafræði.
Myndin, sem heitir Ragnarok, eða Ragnarök á íslensku, ber keim af myndum eins og Indiana Jones og The Mummy, en vinnur útfrá Norrænni goðafræði eins og fyrr sagði.
Komin er glæný stikla fyrir myndina sem má sjá hér að neðan:
Eins og flestir ættu að vita þá eru ragnarök nafnið yfir heimsendi í Norrænni goðafræði, þar sem Guðir og menn og heimurinn allur líður undir lok.
Leikstjóri myndarinnar er Mikkel Sandemose.
Sagan fjallar um það að þegar fornleifafræðingurinn Sigurd getur ekki sætt sig við söguna um Ragnarök ( heimsendir í Norrænni goðafræði ) þá ákveður hann að fara í rannsóknarleiðangur með tveimur kollegum sínum og tveimur börnum sínum. Ævintýrið leiðir þau til Finnmerkur í nyrsta hluta Noregs, og í einskis manns land á milli Rússlands og Noregs, þar sem enginn hefur komið í nútímanum. Gamlar rúnir fá nýja merkingu, og upplýsa um nýjan sannleika. Sannleika sem er stærri og mikilfenglegri en þig gæti nokkurn tímann dreymt um.
Með helstu hlutverk fara Pål Sverre Hagen (Kon-Tiki), Nicolai Cleve Broch, Bjørn Sundquist og Sofia Helin.
Enn er ekki kominn fastur frumsýningardagur á myndina í Bandaríkjunum, en myndin verður frumsýnd í Noregi þann 30. ágúst nk.
Enn er óvíst með sýningar myndarinnar hér á landi.