Hangover 3 verður ólík fyrstu tveimur Hangover myndunum, að sögn handritshöfundarins Craig Mazin, en hann ræddi myndina við vefmiðilinn E-online í gær við frumsýningu á myndinni Identity Thief í Los Angeles. „Þeir vakna ekki upp og vita ekkert hvað þeir gerðu kvöldið áður,“ segir hann um vinina fjóra í myndinni, úlfagengið svokallaða.
„Söguþráðurinn er þónokkuð ólíkur, en þetta eru ennþá gaurarnir fjórir í klikkuðum ævintýrum,“ bætti Mazin við. „Í hreinskilni sagt þá nálguðumst við [leikstjórinn] Todd [Philips] og ég myndina þannig að hún gæti orðið frábær endir á þríleik og það útskýrir talsvert og bindur myndirnar saman á áhugaverðan hátt. Mér finnst Todd hafa gert þetta ótrúlega vel.“
Mazin lofar því að The Hangover 3 muni innihalda svipað magn af óvæntum atriðum og hinar tvær höfðu. „Það eru hlutir í þessari mynd sem ég hreinlega trúi varla að hafi verið festir á filmu,“ sagði Mazin hlæjandi. „Það er ekki einu sinni stuðandi, eða þannig, en það er svo ósvífið. Þetta er mjög ósvífin mynd. Þetta er stærsta þriðja mynd í seríu sem ég hef séð og ég held að fólk eigi eftir að hrífast af henni.“
Mazin segir að úlfagengið, (e. wolf pack ) muni þvælast til nokkurra bandarískra borga í myndinni, en fer ekki út fyrir Bandaríkin. „Það sem byrjar í Vegas verður að enda í Vegas.“
Mazin segir að það hafi verið erfitt fyrir stjörnurnar Bradley Cooper, Zach Galifianakis og alla hina að kveðja þessa seríu. „Það var erfitt,“ segir Mazin. „Ég held að þeir séu orðnir svo góðir vinir í gegnum þessar myndir og, í sannleika sagt, þeir eru allir orðnir stórstjörnur af því að leika í The Hangover myndunum, þær eru orðnar svo stór hluti af lífi þeirra [… ]“
The Hangover 3 verður frumsýnd 24. maí nk. í Bandaríkjunum.