Nýjasta hrollvekja Halloween-leikstjórans Rob Zombie verður frumsýnd í apríl nk. í Bandaríkjunum og nú er komin fyrsta stiklan úr myndinni, sem heitir The Lords of Salem.
Myndin er sú fyrsta frá Zombie síðan hann gerði The Devil´s Rejects sem ekki er endurgerð.
Myndin fjallar um Heidi, útvarpskonu sem býr í Salem í Massachusetts, sem fær skrýtinn trékassa í pósti sem inniheldur hljómplötu, sem er „gjöf frá Lávörðunum“. Heidi hlustar á plötuna og furðulegt hljóðið sem heyrist verður til þess að hún sér í leiftursýn, endurlit úr ofbeldisfullri fortíð bæjarins. Er Heidi að verða geðveik eða eru „Lávarðar Salem“ að snúa aftur til að hefna sín í Salem nútímans?
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
Miðað við stikluna er hér á ferð satanískur tryllir, þar sem englar og djöflar koma við sögu, með tilheyrandi blóðsúthellingum.
Rob Zombie sagði í samtali við Empire kvikmyndaritið að hann hataði yfirleitt stiklur, þar sem þær væru svo oft að láta myndina líta allt öðruvísi út en hún er í raun. „En þessi stikla er mjög lýsandi fyrir Lords of Salem. Ég er búinn að horfa á hana [stikluna] og mér fannst hún vera svöl, eins og kvikmynd sem fólk myndi raunverulega langa að fara að sjá. Þett er ekki hallærislegt,“ sagði Zombie.
Lords of Salem verður frumsýnd 26. apríl nk. í Bandaríkjunum.