Kvikmyndaleikarinn Burt Reynolds var lagður inn á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Flórída í gær vegna alvarlegra einkenna flensu.
Reynolds, sem er 76 ára gamall, er talinn hafa þjáðst af alvarlegri ofþornun, þegar hann var lagður inn.
Talsmaður leikarans, Erik Kritzer, vildi ekki gefa upp á hvaða spítala leikarinn var á, í samtali við CNN sjónvarpsstöðina. „Hann myndi vilja halda því leyndu.“
„Honum líður betur núna. Við vonumst til þess að um leið og hann fær meiri vökva, þá muni hann verða fluttur af gjörgæslu.“
Reynolds, sem er þekktur fyrir leik sinn í Smokey And The Bandit og Deliverance, fór í stóra hjartaaðgerð árið 2010.
Hann hefur einnig dvalið á meðferðarstofnun vegna fíknar í lyfseðilskyld lyf.
Flensa hefur herjað á Bandaríkjamenn og er að verða að faraldri í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, samkvæmt frétt Sky News fréttastofunnar.