Metropolis plakat eins og Mona Lisa

Kvikmyndaplakat fyrir hina sígildu kvikmynd Metropolis, sem talið hefur verið dýrmætasta bíóplakat í heimi, var selt á uppboði hjá gjaldþrotadómstóli í Los Angeles í Bandaríkjunum í gær, fimmtudag, fyrir 1,2 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmar 152 milljónir íslenskra króna.

Kaupandinn heitir Ralph DeLuca, og hafði hann betur í samkeppni við þrjá aðra bjóðendur. DeLuca segir að plakatið sé sambærilegt við sjálfa Monu Lisu, frægasta málverk í heimi, eftir Leonardo da Vinci.

DeLuca telur sig hafa gert kostakaup: „Ég bjóst við að þurfa að reiða fram 1,5 – 1,6 milljónir dala að minnsta kosti,“ sagði DeLuca við kvikmyndavefinn TheWrap, eftir að hann hafði lokið kaupunum. „Á alvöru uppboði hefðu fengist 1,6 milljónir dala,  bara fyrir Metropolis plakatið.“

Fyrri eigandi, Kenneth Schacter, keypti plakatið fyrir þessa mynd Fritz Lang frá árinu 1927, árið 2005 fyrir metupphæð á þeim tíma, eða 690 þúsund dali, en þurfti að selja það eftir að hann varð gjaldþrota.

Búist var við að metið frá 2005 yrði slegið á uppboðinu, en það tókst ekki þar sem Metropolis plakatið var selt í pakka með nokkrum öðrum plakötum fyrir sígildar myndir eins og King Kong og The Invisible Man, og því er ekki hægt að flokka söluna sem nýtt met.

Það eru þó líkur til að metið falli í framtíðinni ef DeLuca ákveður að selja, sem er ekki víst. DeLuca segist eiga stærsta safn í heimi af ljósmyndum úr kvikmyndum, en hann telur að Metropolis geti selst á tvær milljónir dala í framtíðinni, ef hann ákveður að selja.

Aðeins eru þrjú önnur eintök til af plakatinu, sem hannað var af þýska listamanninum Heinz Schulz-Neudamm. Talið er að leikarinn Leonardo DiCaprio eigi eitt þeirra,  The Museum of Modern Art í New York eigi annað og það þriðja sé í eigu Austrian National Library museum.

„Ég segi ekki að ég muni aldrei selja það,“ segir DeLuca. „Það gæti alltaf einhver gert mér tilboð sem ég gæti ekki hafnað.“