Það er varla hægt að ímynda sér uppteknari kvikmyndagerðarmannmann í sínu fagi á Íslandi heldur en Baltasar Kormák. Hann er á fullu þessa daganna að kynna myndina Djúpið á meðan hann er í stuttu fríi frá framleiðslu myndarinnar 2 Guns með Mark Wahlberg og Denzel Washington. Einnig er hann að vinna í prufuþætti („pilot“) fyrir HBO en það er allt á forvinnslustigi.
Í viðtali í Kastljósi í gær uppljóstraði leikstjórinn því sem hann hefur í huga að vinna í á næstunni, en burtséð frá HBO-þættinum og myndarinnar Grafarþögn (sem er „framhaldið“ af Mýrinni) hefur hann áhuga á því að færa tvær af þekktari skáldsögum Íslands upp á kvikmyndatjaldið: Sjálfstætt fólk og Gerpla. Nýlega keypti hann kvikmyndaréttinn af þeim báðum.

„(Sjálfstætt fólk) er svona okkar stóra bók. Mér hefur lengi dreymt um að gera hana. Og líka Gerplu. Þetta eru sögur sem ég hef mikla ástríðu fyrir,“ segir Baltasar í viðtalinu.
Djúpið verður frumsýnd á föstudaginn. Umfjöllun um myndina birtist á þessari síðu annað hvort á morgun eða á fimmtudaginn.

