Síðastliðin ár hefur leikstjórinn Robert Zemeckis daðrað aðeins við ‘motion capture’ tæknina með mismunandi árangri. Það ætlar ekki að stöðva hann því hann hefur tekið það að sér að framleiða leikna/mocap kvikmynd byggða á bók Chuck Sambuchino, How to Survive a Garden Gnome Attack sem var gefin út í fyrra. Sony Pictures Animation standa nú í því að kaupa réttinn að bókinni og voru þeir Chad Damiani og J.P. Lavin fengnir til að skrifa handritið, en hingað til hafa þeir ekki skrifað neitt markvert.
Eins og titillinn gefur til kynna, þá er þetta handbók til að hjálpa húseigendum að verjast „óhjákvæmilegu“ árás garðálfanna sem standa stoltir í görðum út um allan heim. Í henni er m.a. talað um farsæla garðálfa-veiðara, einn sem hefur yfir 212 dauða garðálfa undir beltinu, og „tíu ráð sem munu bjarga lífi þínu“; þar er mælt með að lesandinn læri t.d. að hoppa út um glugga á fyrstu hæð, geyma vopn í hverju herbergi, hreinsa gólfin og hafa reiðhjól til vara; ef það kæmi fyrir að garðálfarnir væru búnir að eyðileggja bílinn og fyrsta hjólið.
Sagt hefur verið að myndin mun vonandi bera R merkið í Bandaríkjunum, og verður þá líklegast bönnuð inna 16 ára hér á landi, sem er satt að segja frábært að vita; þar sem að svona hugmynd væri örugglega ekki eins skemmtileg án smá blóðsúthellingar. Að svo stöddu mun Zemeckis ekki leikstýra, enda er hann með nóg í höndunum um þessar mundir.