2 nýjar í bíó: Ratchet og Clank og Captain America: Civil War

Teiknimyndin Ratchet og Clank og ofurhetjumyndin Captain America: Civil War koma í bíó á föstudaginn næsta, þann 29. apríl.

ratchet-clank-20161309

Kvikmyndin Ratchet og Clank er byggð á hinum geysivinsæla samnefnda tölvuleik sem kom fyrst út árið 2002. Félagarnir Ratchet og Clank þurfa nú að stöðva hinn illa Drek frá því að eyðileggja plánetur í Solana-vetrarbrautinni. Þeir ganga til liðs við hóp litríkra og skemmtilegra persóna sem kallar sig Alheimsverðina. Saman keppast þau við að bjarga sólkerfinu á sama tíma og það reynir á vináttu þeirra. Ratchet og Clank þurfa að skoða hvað það merkir að vera hetja og hvað það þýðir að vera hugrakkur og trúr sjálfum sér.

Sjáðu íslenska stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Landslið íslenskra grínara koma að talsetningunni, en þar má meðal annars nefna Steinda Jr., Ara Eldjárn, Sölku Sól, Pétur Jóhann Sigfússon, Andra Frey Viðarsson, Sögu Garðars, Sverri Bergmann, Dóra DNA, Auðun Blöndal, Ólaf Darra, Loga Bergmann, Ólaf Þór Jóelsson, o.fl.

Kvikmyndin var forsýnd á sérstakri hátíðarsýningu sumardaginn fyrsta í Smárabíói við frábærar undirtektir.

clark


Captain America Civil War

Í Captain America Civil War koma saman allar helstu ofurhetjur Marvel heimsins: Captain America, Iron Man, Black Widow, Winter Soldier, Falcon, War Machine, Hawkeye, Vision, Black Panther, Scarlet Witch, Ant-Man og Spiderman.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Vegna misheppnaðra aðgerða sem kostað hafa mannslíf hefur stjórnin ákveðið að hér eftir þurfi Avengers-hópurinn og aðrir með ofurkrafta að fylgja ströngum reglum. Við þetta vill Steve Rogers ekki sætta sig þvert á vilja Tonys Stark og smám saman magnast deilan uns á brestur bardagi sem á eftir að taka sinn toll.

captain america

Aðalhlutverk: Chris Evans, Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Elizabeth Olsen, Paul Rudd, Tom Holland, Sebastian Stan og Jeremy Renner

Leikstjórn: Anthony og Joe Russo

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Laugarásbíó, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó, Bíóhöllin Akranesi og Króksbíó Sauðárkróki

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans:

civil– Við gerð myndarinnar var öllum sem að henni standa gert að skrifa undir trúnaðarskjal um að segja ekki frá efni hennar og því síður hvernig bardaginn mikli fer á milli þeirra Tonys Stark og Steves Rogers og liða þeirra. Þeir sem lesa sögurnar vita auðvitað dálítið meira um framvinduna en aðrir en þó hefur það verið látið spyrjast út að sagan í myndinni sé að miklu leyti öðruvísi en í teiknimyndablöðunum.

– Ekki hefur að öllu leyti verið látið uppi hverjir það eru nákvæmlega sem taka þátt í bardaganum en vitað er að í liði Steves Rogers/Captains America eru Hawkeye, Falcon, The Winter Soldier, Scarlet Witch, Agent 13 og Ant-Man, en í liði Tonys Stark/Iron Man eru War Machine, Vision, Black Widow, Black Panther og sjálfur Spider-Man, en hann er hér leikinn af hinum 19 ára gamla Tom Holland sem mun leika hann næstu árin.

– Fyrir utan þá sem skipa liðin segir orðrómurinn að fleiri ofurhetjur komi við sögu, en við látum áhorfendum eftir að uppgötva hverjar.

– Captain America: Civil War verður frumsýnd hér á landi viku áður en hún verður frumsýnd í heimalandinu, Bandaríkjunum. Þeir Íslendingar sem áhuga hafa og eru fljótir að reima á sig skóna geta því orðið á meðal þeirra allra fyrstu í heiminum til að sjá hana. Sjáumst í bíó!