Zeta verður svarta dópekkjan Griselda

Óskarsverðlaunaleikkonan Catherine Zeta Jones hefur verið ráðin í hlutverk eiturlyfjabarónessunnar Griselda Blanco í sjónvarpsmyndinni Cocaine Godmother, samkvæmt upplýsingum frá The Hollywood Reporter.

Frumsýning er áætluð árið 2018. Myndin fjallar um flókið líf Griselda, sem komst til Bandaríkjanna á fölsuðu vegabréfi þegar hún var 17 ára gömul, ásamt fyrsta eiginmanni sínum. Hún bjó í Queens í New York ásamt þremur sonum sínum, og fór fljótlega að vinna í dópbransanum, og náði miklum árangri í að notfæra sér fagrar konur, gamalt fólk og börn, sem burðardýr fyrir eiturlyf, og bjó til ferðatöskur með fölskum botni, til að smygla kókaíni frá Kolombíu.

Þegar peningarnir fóru að streyma inn, þá hættu synirnir í skóla og sneru sér að fjölskyldu“fyrirtækinu“. Hún flutti svo til Miami til að víkka út veldi sitt.  Það varð seinni eiginmanni hennar að aldurtila, sem varð til þess að viðurnefnið Svarta ekkjan festist á Griselda.

Hún var óspör á notkun ofbeldis í viðskiptum sínum við samkeppnisaðila sína í Miami, og þeir reyndu ítrekað að drepa hana.

Til að vernda yngsta son sinn, sem hún eignaðist með þriðja eiginmanni sínum, þá flutti Griselda til Kaliforníu, þar sem hún var að lokum handtekin og dæmd í tíu ára fangelsi.  Málatilbúnaðurinn brotnaði þó allur í þúsund mola, og þegar henni var sleppt, var henni vísað úr landi og til Kolombíu, en þar var hún að lokum skotin og drepin árið 2012.

Veldi hennar í Bandaríkjunum náði þegar hæst stóð yfir öll Bandaríkin og hún var grunuð um að láta drepa meira en 200 menn.

Verðlaunakvikmyndatökumaðurinn Guillermo Navarro ( Narcos ) mun leikstýra, og handrit skrifar David McKenna ( American History X ).