Wiig staðfestur óþokki í Wonder Woman 2

Sögusagnir um að gamanleikkonan vinsæla Kristen Wiig hefði verið ráðin í hlutverk aðal óþokkans í Wonder Woman framhaldsmyndinni, hafa nú verið staðfestar.

Leikstjórinn, Patty Jenkins, fór á Twitter og skrifaði þar færsluna: „Já! það er satt!“.  „Ótrúlega ánægð að fá hina hæfileikaríku Kristen Wiig í Wonder Woman fjölskylduna. Get ekki beðið eftir að vinna með einni af minni uppáhalds. Og MJÖG spennt yfir því sem koma skal.“

Í Wonder Woman 2 mun Kristen fara með hlutverk Cheetah, eins helsta erkióvinar Wonder Woman. Cheetah var upphafleg sköpuð af höfundi Wonder Woman, William Moulton Marston árið 1943.  Hún var upphaflega hefðardama sem hét Priscilla Rich, en var með klofinn persónuleika. Aðrar útfærslur á Cheetah eru Deborah Domaine, frænka Priscilla Rich, og Barbara Ann Minerva, fornleifafræðingur sem varð Cheetah eftir að hafa tekið þátt í frumstæðri athöfn.

Það verður spennandi að sjá Wiig í óþokkahlutverkinu!