Westworld fær aðra þáttaröð – jafn spennandi og þá fyrri

Bandaríska sjónvarpsstöðin HBO hefur pantað til sýninga aðra þáttaröð af vísindatryllinum vinsæla Westworld, sem sýndur er á Stöð 2. Pantaðir voru 10 nýir þættir. Samkvæmt Casey Bloys, dagskrárstjóra HBO, þá er einn hængur á – vegna umfangs þáttanna og þess hve seinlegt er að vinna þá, þá verður fólk mögulega að bíða til ársins 2018 eftir að fá að sjá þá.

westworld

Flestir sem fylgst hafa með þáttunum hafa spáð því að gerð yrði önnur þáttaröð, enda hefur þeim verið gríðarlega vel tekið af bæði gagnrýnendum og áhorfendum. ( Meðal áhorf á þættina er 11,7 milljón áhorfendur, sem er meira en Game of Thrones þættirnir fengu fyrsta árið sem þeir voru sýndir )

Til upplýsinga fyrir þá sem ekki hafa séð þættina enn, þá er Westworld gríðarstór skemmtigarður í vestrastíl, þar sem gestir borga stórfé, um 40 þúsund Bandaríkjadali á dag, eða um 4,5 milljónir íslenskra króna, fyrir að fá að gera nákvæmlega það sem þeim sýnist í garðinum, þar á meðal að skjóta og myrða alla sem þeir hitta ( þ.e. vélmennin ). En ekki er allt sem sýnist og svo virðist sem vélmennin, sem haga sér eftir fyrirframgefnu handriti ( forriti ), séu farin að taka upp sjálfstæðan vilja!

LESTU HÉR VANGAVELTUR UM HVE RAUNVERULEGIR ÞÆTTIRNIR ERU

Entertainment Weekly átti samtal við Bloys um þættina:

Hvenær áttu von á að þættirnir komi á skjáinn?

Casey Bloys: Mig grunar að það verði einhverntímann árið 2018 vegna þess hve stór heimurinn í þáttunum er, og hvað það tekur langan tíma að taka þættina upp. Þannig að ég veit þetta ekki nákvæmlega.

Höfundar þáttann, þau Jonathan Nolan og Lisa Joy, hljóta að hafa sagt þér það helsta sem gerist í annarri þáttaröð. Var eitthvað sérstakt sem heillaði þig?

Cacey Bloys: Jonah og Lisa eru frábærir sögumenn. Ég vissi ekki alveg hverju ég mætti að eiga von á. En það sem þau sögðu mér er spennandi, dularfullt og skemmtilegt, rétt eins og í fyrstu þáttaröðinni. Og mjög frumlegt sömuleiðis.