Weaver verður Marvel þorpari

Netflix er með nýja Marvel teymis-ofurhetjumynd í smíðum, The Defenders, en þar leiða saman hesta sína fjórar ofurhetjur sem allar hafa fengið sína eigin sjónvarpsþáttaraðir, þau Daredevil, sem Charlie Cox leikur, Jessica Jones sem Krysten Ritter leikur, Luke Cage, sem Mike Colter leikur, og Iron Fist, sem Finn Jones leikur.

weaver

En stóra spurningin er núna, hver verður erkióvinur hópsins í þáttunum? Marvel TV veitti svör við þessari spurningu á Comic Con New York afþreyingarráðstefnunni núna um helgina og sagði að engin önnur en Avatar og Alien leikkonan Sigourney Weaver hefði verið ráðin í hlutverk aðal þorparans.

Á Comic Con komu þau Cox, Ritter og Colter öll fram óvænt á sviði í pallborðsumræðum um Iron Fist þættina sem væntanlegir eru, áhorfendum til mikillar undrunar og gleði, en fyrir á sviðinu var Iron Fist leikarinn sjálfur, Finn Jones. Gleðin varð síðan enn meiri er Weaver var kynnt til sögunnar stuttu síðar.

Marvel hefur ekki sagt hvaða hlutverk nákvæmlega Weaver muni leika.

 

The Defenders eru væntanleg á Netflix á næsta ári. Auk aðalsöguhetjanna fjögurra, þá munu persónurnar Foggy Nelson úr Daredevil, Malcolm Ducasse úr Jessica Jones og Misty Knight úr Luke Cage einnig koma við sögu í þáttunum. Einnig er talið líklegt að ofurhetjan The Punisher, eða Refsarinn, sem Jon Bernthal leikur, komi einnig fram í þáttunum, sem og Claire Temple sem Rosario Dawson leikur.

Sjáðu The Defenders kitluna hér að neðan sem frumsýnd var sl. sumar: