Wan brjálaður út í Óskarsnefndina

Leikstjóri ofurhetjumyndarinnar Aquaman, sem er í bíó á Íslandi nú um stundir, James Wan, hefur gagnrýnt Óskarsakademíuna fyrir að hafa myndina ekki á stuttlista fyrir bestu tæknibrellur á Óskarsverðlaununum.

Wan lýsti þessu sjónarmiði sínu í svari við skrifum yfirmanns tæknibrellna í Aquaman, Kelvin McIlwain, á Facebook. Wan skrifaði: „Kelvin, þú og þín deild eruð hetjur þesssarar kvikmyndar, sem ekki hafið hlotið verðskuldað lof.“

Og hann bætti við: „Sú staðreynd að kollegar ykkar hjá akademíunni hafa ákveðið að viðurkenna ekki ykkar starf við myndina, er algjör dj**** hneisa.“

Stuttlisti fyrir tæknibrellur á Óskarsverðlaununum hefur verið tilkynntur, og á honum eru 10 kvikmyndir, þar á meðal Avengers: Infinity War, Black Panther, Ant-Man and the Wasp, First Man og Ready Player One.

McIlwain svaraði Wan: „Ég er sammála þér James. Það var algjört áfall fyrir alla, að við vorum ekki í hópi myndanna 10 sem valdar voru á stuttlistann.“

Aquaman hefur á skömmum tíma orðið ein vinsælasta kvikmynd allra tíma sem gerð er eftir DC myndasögu, og fór nú nýlega fram úr Wonder Woman í fjölda miða seldra.

Af Óskarnum, sem afhentur verður 25. febrúar nk., er það annars að frétta að enn er ekki búið að finna kynni fyrir kvöldið, en sögur herma að grínistinn Kevin Hart muni eftir allt saman taka við starfinu á nýjan leik, en hann sagði sig frá því eftir að hann fékk á sig gagnrýni vegna ummæla um samkynhneigða í gömlum tístum á Twitter.