Wallis með Cruise í Múmíunni

Eftir margra ára tafir er nú loksins komin hreyfing á endurræsingu Universal kvikmyndaversins á ævintýramyndinni The Mummy. Í síðasta mánuði staðfesti verið að Tom Cruise myndi leika aðalhlutverkið, og Sofia Boutella myndi leika múmínuna sjálfa. Frumsýningardagur hefur verið ákveðinn 9. júní, 2017.

mummy

Í dag segir The Hollywood Reporter vefsíðan frá því að Annabelle Wallis hafi ráðið sig til myndarinnar, til að leika aðal kvenhlutverkið á móti Tom Cruise.

Á síðunni segir að Tom Crusie leiki sérsveitarmann ( eða fyrrverandi hermann ) í endurræsingunni, sem mun gerast í nútímanum. Fyrri Mummy myndirnar, með Brendan Faser í aðalhlutverkinu, gerðust allar í fortíðinni.

Mummy myndin nýja verður fyrsta myndin í nýjum skrímslaheimi Universal, sem mun allur eiga sér stað í nútímanum.

Variety segir frá því að Wallis muni leika fornleifafræðing í myndinni, en ekkert er meira vitað að svo stöddu um persónuna. Söguþráður er sömuleiðis enn á huldu.

Sofia Boutella, múmían sjálf, er fyrsta konan til að leika múmíuna hjá Universal frá upphafi. Upprunalega The Mummy myndin, frá árinu 1932, var með Boris Karloff í hlutverki múmíunnar, en Arnold Vosloo lék hana í endurgerðinni 1999 og framhaldinu, The Mummy Returns, árið 2001. Jet Li lék svo múmíuna í The Mummy: Tomb of the Dragon frá árinu 2008.

Alex Kurtzman leikstýrir nýju myndinni.