Veröld DC Comics verður mögnuð

Ben Affleck er mjög spenntur fyrir þróun mála hjá DC Comics og telur að veröld fyrirtækisins á hvíta tjaldinu eigi eftir að verða mögnuð.

batman

Affleck leikur Leðurblökumanninn í fyrsta sinn á næsta ári í Batman v Superman: Dawn of Justice. Hann kemur einnig fram í Suicide Squad, sem kemur út næsta sumar, auk þess sem tökur eru nýhafnar á Wonder Woman. Þessar myndir leiða svo til fyrstu Justice League-myndarinnar.

„Næsta ár verður frábært fyrir Warner Bros.“ sagði Affleck við Variety. „Þeir ætla að nýta sér…líklega mögnuðustu og vannýttustu eignina í skemmtanabransanum: veröld DC Comics. Núna eru þeir byrjaðir að nota hana meira og þið eigið eftir að sjá hana blómstra. Og þegar hún gerir það verður hún mögnuð.“

Batman v Superman: Dawn of Justice er væntanleg í mars á næsta ári í leikstjórn Zack Snyder.