Útiloka Evrópuferð vegna Taken

Liam Neeson er greinilega ekki besta auglýsingin fyrir Evrópuferðir þessi misserin. Leikarinn írski hefur uppljóstrað að hann hafi fengið bréf frá Bandaríkjamönnum sem geta ekki hugsað sér að ferðast til Evrópu eftir að hafa horft á Taken myndir hans, en gíslataka er gegnumgangandi þema í myndunum.

taken_3_neeson

Neeson lét þessi orð falla í spjallþættinum The Graham Norton Show: „Um daginn fékk ég bréf frá kennara í Texas sem hafði reynt að skipuleggja ferð 60 nemenda til Evrópu, og fjölskyldur 40 þeirra, fengu krakkana ofan af því af því að þau höfðu séð Taken 2.“

„Og nú í ár þá vildi hún fara með 20 þeirra til Evrópu og þá sögðu allir foreldrarnir „Nei, af því að við höfum séð þessa mynd!“ bætti hann við.

Neeson var mættur í þáttinn til að kynna þriðju Taken myndina, en sagði þar meðal annars að hann hefði aldrei samþykkt að leika í henni ef að sömu hugmyndir væru á ferð og í fyrstu tveimur myndunum. „Ég sagði að ég myndi ekki gera mynd númer þrjú ef einhver yrði tekinn … það hefði verið móðgun við áhorfendur og mig sömuleiðis. Þetta er góður söguþráður og nú er ég eltur í stað þess að vera sjálfur að elta einhvern,“ sagði hann.

Taken 3 kemur í bíó í Bandaríkjunum og á Íslandi 9. janúar