Tuttugu þúsund sóttu RIFF

Þrettándu RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, er lokið en hátíðin stóð yfir frá 29. september síðastliðnum. Gert er ráð fyrir að yfir 20.000 manns hafi sótt sýningar, námskeið og fræðslu á vegum RIFF í ár, bæði í Reykjavík en einnig á landsbyggðinni svo sem Patreksfirði og Reyðarfirði.

©Kristinn Ingvarsson
©Kristinn Ingvarsson

Andri Snær Magnason og Darren Aronovsky

Uppselt var á margar sýningar sem í ár fóru fram í Bíó Paradís, Háskólabíó og Norræna húsinu, að því er segir í tilkynningu frá hátíðinni. Mikill fjöldi erlendra gesta sótti hátíðina ennfremur heim í ár, þar á meðal sóttu hátt í 300 manns sérstaka Bransadagadagskrá RIFF þar sem kastljósinu var beint að íslenskri kvikmyndaframleiðslu og þeim möguleikum sem bjóðast hér á land í kvikmyndagerð. Farið var í fjölmenna ferð út á land þar sem tökustaðir voru skoðaðir og blaðamönnum, sölu- og dreifingaraðilum, framleiðendum og stjórnendum erlendra hátíða var boðið að kynna sér íslensk verk í vinnslu á sérstökum fundi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að viðstöddum aðstandendum myndanna.

Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og venju samkvæmt voru margskonar sérviðburðir á dagskrá. Sem dæmi má nefna hið sívinsæla Sundbíó, Barna- og unglingahátíð RIFF sem og fjölda Q&A sýninga.

born

Glæsilegir gestir settu svip sinn á hátíðina, en heiðursgestir voru leikstjórarnir Darren Aronofsky og Deepa Mehta. Þeim var báðum veitt heiðursverðlaun og stjórnuðu hvort sínu meistaraspjallinu sem bæði voru mjög
vel sótt. Heiðursleikstjóri hátíðarinnar var Alejandro Jodorowsky, sjálfur komst hann ekki til landsins en sonur hans, Brontis Jodorowsky, kom og var með meistaraspjall.  Brontis hefur starfað náið við hlið föður síns og fer meðal annars með hlutverk í nýjustu mynd hans, Ljóð án enda, sem sýnd var á hátíðinni.

Leikkonan, leikstjórinn og tísku íkonið Chloë Sevigny var einnig sérstakur gestur RIFF í ár en hún sýndi sína fyrstu mynd, stuttmyndina Kitty sem sýnd var í erlendum stuttmyndaflokki RIFF í ár.

Þema RIFF í ár var Hvers konar friður og voru hugtökin friður og mannréttindi gegnumgangandi í vali á kvikmyndum á hátíðina í ár. Samstarf var við Höfða, Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um málþing þar sem fjallað var um hvort kvikmyndir geti stuðlað að friði.

 

Stikk: