Transformers stefnir í þjóðhátíðardagsmet

Stórmyndin Transformers: Dark of the Moon tók samkeppnina í nefið í miðasölunni í Bandaríkjunum, og annarsstaðar í heiminum, um helgina og hefur rakað inn 372 milljónum Bandaríkjadala í miðasölunni á heimsvísu frá því hún var frumsýnd á miðvikudaginn síðasta, að því er framleiðandinn Paramount Pictures sagði í frétt.
Myndin sem er sú þriðja í seríu, fjallar um baráttu geimvélmenna um yfirráð yfir jörðinni. Síðustu tölur úr miðasölunni herma að myndin sé á góðri leið með að slá met í miðasölu, og hefur reynst vera lyftistöng fyrir þrívíddarformatið, en 70 prósent tekna myndarinnar utan Bandaríkjanna koma frá þrívíddarsýningum og 60 prósent tekna myndarinnar í Bandaríkjunum.

Talið er að tekjur af myndinni í Bandaríkjunum og Kanada frá föstudegi til sunnudags fari í 97,4 milljónir dala, sem yrði nýtt met fyrir þessa helgi, þjóðhátíðardagshelgina í Bandaríkjunum. Fyrra metið á Spider-Man 2 með 88,2 milljónir dala frá árinu 2004.

Paramount spáir því að Transformers verði búin að þéna 116 milljónir dala í lok morgundagsins, mánudagsins 4. júlí, í Bandaríkjunum og Kanada, og alls 181 milljón dala frá frumsýningardeginum.

Myndin kostaði 200 milljónir dala í framleiðslu og auk þess var farið í tuga milljóna dollara markaðsherferð.

Toppmynd síðustu helgar, Disney/Pixar myndin Cars 2 datt niður í annað sætið, með um 25,1 milljón dala í tekjur. Hún hefur nú þénað 116 milljónir dala alls frá frumsýningu.

Gamanmyndin Bad Teacher með Cameron Diaz í aðalhlutverkinu datt úr öðru sætinu í síðustu viku niður í það þriðja, með 14,1 milljón dala í tekjur, og ný mynd, Larry Crowne, rómantísk gamanmynd með Tom Hanks og Juliu Roberts, tók fjórða sætið með 13 milljónir dala í tekjur.

Í fimmta sæti varð svo önnur ný mynd, gamanmyndin Monte Carlo með 7,6 milljónir dala.