Tom Hardy verður líklega Dr. Hugo Strange í Batman

Tom Hardy, sem lék stórt hlutverk í Inception sl. sumar, er nú talinn líklegur til að leika Dr. Hugo Strange í næstu Batman mynd, The Dark Knight Rises. Búið er að fastráða Hardy í myndina, en fram kom á aðdáendasíðunni Batman News, að líklega myndi hann leika lögreglugeðlækninn, sem er heltekinn af Batman.

Batman News hefur áður reynst áreiðanleg þegar kemur að orðrómi eins og þessum, en síðan sagði einnig frá því að Rachel Weisz og Anne Hathaway kepptu um aðalkvenhlutverkið í myndinni.
Leikstjóri Batman, Christopher Nolan, hefur þegar sagt að Gátumaðurinn, eða The Riddler, verði ekki í myndinni, eins og margir héldu.
Hann sagði: „Það verður enginn Riddler. Við munum nota einhverja af sömu persónunum og við höfum áður notað, en kynna jafnframt nýjar til sögunnar.“
Eins og áður hefur komið fram þá mun myndin ekki verða tekin í þrívídd, en í staðinn í háskerpu fyrir IMAX risabíó.
Sir Michael Caine mun að öllum líkindum snúa aftur sem þjónn Batman, Alfred. Myndin verður frumsýnd árið 2012.